Píratar á Akureyri ósáttir við Aðalskipulag bæjarins

Mynd úr miðbæjarskipulagi Akureyrar.

Píratar á Akureyri hafa tekið sig saman og sett ýmsar athugasemdir við nýja aðalskipulag Akureyrar 2018-2030, sem kynnt var í Hofi í mars. Í athugasemdunum má sjá að Píratar á Akureyri eru ekki sáttir við marga þætti skipulagsins og telja þá sem að skipulaginu standa ekki gæta nógu vel að framtíðarsýn bæjarins. Þeir nefna að íbúalýðræði þurfi að vera betra og að nauðsynlegt sé að leyfa íbúum bæjarins að taka þátt í stórum ákvörðunum sem fylgja svona mikilvægu skipulagi, líkt og Aðalskipulagið er.

Kaffið fjallaði um breytingartillögur í kjölfar fundarins en þær eru m.a. að byggja 100-150 nýjar íbúðir á Akureyrarvelli, byggja 260 nýjar íbúðir á Kotárborgum, minnka Glerárgötuna í tvær akreinar í stað fjögurra, þrengja að íþróttasvæði Þórs og KA til að byggja íbúðir o.fl.

Yfirlýsingu Pírata á Akureyri má lesa í heild sinni hér að neðan: 

Stjórn Pírata á Akureyri vill gera eftirfarandi athugasemdir í tengslum við ágæta kynningu á skipulagi Akureyrar í Hofi.
1. Skipulag endurspeglar ávallt pólitískar áherslur. Mikið vantar uppá að samfélagslegar áherslur séu nægar að mati okkar. Hvergi eru fráteknar lóðir fyrir NFP (Not For Profit) samvinnufélagaverkefni eða fyrir slík verkefni á vegum bæjarins. Píratar á Akureyri telja það úrelta hugsun að leysa ekki bráðavandamál bæjarbúa með hagkvæmustu lausnunum fyrir þá sjálfa. Skortur á húsnæði og sligandi hátt leiguverð er rík ástæða fyrir bæjarfélagið að breyta um stefnu og gera sérstakt átak til þess að leysa úr þessum vanda og taka jafnvel forystu með samfélagslegum og óhagnaðardrifnum lausnum. Það rímaði vel í sögu bæjarins sem var öflugasti samvinnubær í landinu á sínum tíma.

 

Sjá einnig: 

100-150 nýjar íbúðir á Akureyrarvelli

2. Til stendur að leggja íþróttavöllinn niður og byggja á honum. Það þýðir að útisamkomusvæði er horfið án þess að nokkuð komi staðinn. Bæjarbúar þurfa að koma að slíkum ákvörðunum og valkostir verða að vera fyrir hendi. Stórauka þarf íbúalýðræði til þess að almenningur hafi bein áhrif á umhverfi sitt.

3. Gæta að framtíðarhugsun til að koma í veg fyrir skipulagsslys. Til að útskýra þessa fullyrðingu má taka dæmi af horninu á Glerárgötu og Tryggvabraut. Á þeirri mikilvægu lóð mun rísa gulur og lágreistur bárujárnskumbaldi undir stórmarkað og einnig heyrast raddir um að bensínstöð verði á reitnum og yrðu þá 4 bensínstöðvar nánast „öxl í öxl“ kringum Glerárbrú. Hverfisnefnd Oddeyrar hefur gert afar áhugaverðar tillögur um notkun á reitnum. Við vitum að lóðin er í einkaeign og lítill möguleiki á að breyta þessari dapurlegu sýn en þetta er mjög gott dæmi til að nota sem hjálpartæki við að móta nýja stefnu í málaflokknum sem tekur meira tillit til þarfa og þátttöku almennings við mótun síns nærumhverfis.

4. Á fundinum viðraði skipulagsstjóri frábæra hugmynd um að Akureyrarbær gæti haft forgöngu um að reisa hentugar íbúðir fyrir eldra fólk sem vildi færa sig úr stærra húsnæði. Hugmynd eins og þessi gæti hjálpað eðlilegu flæði að myndast, þar sem mismunandi aldurshópar þurfa á misstóru húsnæði að halda. Slíkt gæti einnig minnkað rekstrarkostnað einstaklinga og fjölskylda og aukið lífsgæði. Píratar á Akureyri styðja þessa hugmynd heilshugar og leggja til að byggingar- og rekstrarform miðist við óhagnaðrdrifnar lausnir (NFP) annaðhvort í samvinnu við óhagnaðardrifin byggingar- og leigufélög eða með því að bærinn sjálfur byggði.

Stjórn Pírata á Akureyri.

Halldór Arason
Bjarki Hilmarsson
Baldur Jónsson

Sjá einnig:

Burt með Kotárborgir? 260 nýjar íbúðir í staðinn

Krossanes eftirsótt íbúðarsvæði

Stefnt að þéttingu byggðar við félagssvæði Þórs og KA

Tveimur leikskólum lokað á Akureyri?

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó