Intersand MaxCare 12 kg | Gæludýr.is

Rún Viðburðir kynna – Minningartónleikar Jaan Alavere

Rún Viðburðir kynna – Minningartónleikar Jaan Alavere

Minningartónleikar Jaan Alavere verða haldnir í Akureyrarkirkju núna á fimmtudaginn 4. apríl, en þá hefði Jaan orðið 55 ára gamall. 

Jaan Alavere var mörgum kunnugur á Norðurlandinu en hann lést mjög skyndilega þann 3. september árið 2020 í miðju Covid. Jarðarförin fór fram í kyrrþey og var hann svo jarðsettur í Eistlandi.

Jaan var fæddur þann 4. apríl 1969 og þykir því vel við hæfi að halda tónleika honum til heiðurs þann 4. apríl 2024 en þá hefði hann orðið 55 ára gamall.

Tónleikarnir verða haldnir í Akureyrarkirkju 4. apríl kl 20:00

Enginn aðgangseyrir, en tekið verður við frjálsum framlögum.

Fram koma:
Söngfélagið Sálubót
Jónína Björt Gunnarsdóttir
Óskar Pétursson
Jónas Reynir Helgason
Bolli Pétur Bollason
Grete Alavere
Marika Alavere
Valmar Väljaots
Eyþór Ingi Jónsson
Hljómsveitin Gourmet – Trausti Már Ingólfsson, Knútur Emil Jónasson, Borgar Þórarinsson og Pétur Ingólfsson.
Kvennakór Akureyrar

Jaan Alavere fæddist í Eistlandi þann 4. apríl árið 1969.  

Hann hóf fimm ára gamall píanónám, og sjö ára tók hann einnig að læra á fiðlu. 

Í Tallinn gekk Jaan í grunn- og framhaldsskóla sem sérhæfði sig í tónlistar- uppeldi, og nítján ára gamall útskrifaðist hann sem einleikari á fiðlu en jafnframt sem tónlistarkennari og píanóleikari. Hann fór síðan í tónlistarháskóla og lagði stund á fiðluleik og tónsmíðar. Þrátt fyrir ungan aldur, þá bjó Jaan yfir mikilli reynslu sem tónlistarmaður. Hann tók þátt í tónlistarkeppnum fyrir heimaland sitt, lék í fjölda hljómsveita, allt frá dans- og jazzhljómsveitum til sinfóníuhljómsveita. Árið 1994 fékk Jaan ráðningu sem fiðluleikari við sinfóníuhljómsveit elsta leikhúss í Eistlandi, í borginni Tartu. Og síðar varð hann konsertmeistari þeirrar hljómsveitar þangað til hann flutti til Íslands. 

En það var haustið 1998, sem Jaan Alavere var ráðinn deildarstjóri tónlistardeildar Stórutjarnaskóla. Og frá þeim tíma var hann einnig söngstjóri og undirleikari Söngfélagsins Sálubótar, ásamt því að starfa sem organisti   

í sóknum nágrannabyggðanna. 

Það kom fljótlega í ljós að feimnislegi rauðhærði strákurinn frá Eistlandi, sem komið hafði til Íslands, var ekki bara einhver venjulegur tónlistarkennari. 

Hann spilaði á nánast öll önnur hljóðfæri en blásturshljóðfæri. 

Jaan útsetti tónlist fyrir hljómsveitir og kóra rétt eins og hendi væri veifað og hann samdi lög og tónverk að því er virtist fyrirhafnarlaust. Og lögin hans Jaans snertu gjarnan innstu strengi sálarinnar og létu engan ósnortinn.

Jaan var virkur þátttakandi í tónlistarlífinu á Norðurlandi. Hann lék meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og var konsertmeistari þar um hríð. Síðast en ekki síst, þá naut hann sín vel í starfi leikhúsanna, bæði á Akureyri

og í Þingeyjarsýslu. Já, í leikhúsinu var Jaan á heimavelli.

En þrátt fyrir mikla vinnusemi var Jaan mikill fjölskyldumaður. 

Síðan hann flutti til Íslands eignaðist hann þrjár dætur, Marit, Marge og Grete, 

með eiginkonu sinni Mariku. Jaan gerði allt fyrir stelpurnar sínar. 

Hann kenndi öllum dætrum sínum að elska tónlist og verður hann ávallt þeirra stærsta fyrirmynd. Já, Jaan var besti eiginmaður, faðir, sálufélagi, vinur, kennari og vinnufélagi sem hægt er að óska sér. Hans verður sárt saknað, enda skilur hann eftir sig stórt skarð sem ómögulegt er að fylla.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó