Þöndu netmöskvana á Akureyri og Wembley

Bikarmeistarar Manchester United árið 1983.

Eins og mörgum er kunnugt léku knattspyrnustórveldin Manchester City og Manchester United á Akureyri í upphafi 9. áratugarins. Svo skemmtilega vill til að liðin tvö komust í úrslit ensku bikarkeppninnar, sitt hvort árið, um svipað leyti og þau sóttu Akureyri heim. Enn fremur skoruðu nokkrir leikmenn knattspyrnufélaganna tveggja, sem jafnframt sprikluðu á Akureyri, í bikarúrslitaleikjunum á Wembley. Annað liðið hampaði bikarmeistaratitlinum meðan hitt varð að lúta í gras gegn andstæðingnum.

Manchester City spilaði í úrslitum ensku bikarkeppninnar þann 9. maí 1981 gegn Tottenham. Leikurinn endaði með janftefli 1-1 fyrir framan 100 þúsund áhorfendur. Tommy Hutchison skoraði í fyrri hálfleik fyrir City. Hann bætti við öðru marki í seinni hálfleik. Því miður fyrir hann var um sjálfsmark að ræða. Því varð að spila annan leik fimm dögum síðar og endaði hann með sigri Tottenham 3-2. Um það bil 92 þúsund áhorfendur sáu Steve McKenzie og Kevin Reeves skora mörk Manchester-liðsins.

Þremur mánuðum síðar voru markaskorararnir frá Wembley, þeir Hutchison og Reeves, mættir fyrir framan 3000 áhorfendur á Akureyri. Þór Akureyri gegn Manchester City. Leikurinn endaði með sigri City 5-0.

Síðla sumars 1982 kom Manchester United til Akureyrar til að spila vináttuleik gegn KA. Leikurinn endaði með sigri United 7-1. Í liði United á Akureyrarvelli voru meðal annarra hetjur eins og Bryan Robson, Norman Whiteside, Frank Stapleton og Ray Wilkins. Þeir skoruðu allir í úrslitaleikjum ensku bikarkeppninnar tæpu ári síðar þegar lið United lagði Brighton í tveimur leikjum á Wembley.

Einn knattspyrnukappi úr heimabyggð var þátttakandi í tveimur leikjum gegn City og United þegar þau komu til Íslands 1981 og 1982. Nánar um það á heimasíðu Grenndargralsins.

Brynjar Karl Óttarsson.

Leikmenn Manchester City tímabilið 1981 – 1982.

UMMÆLI