Vilja taka á spillingunni svo hægt sé að treysta Alþingi aftur

dst_3145Kaffið ræddi við frambjóðandann Hans Jónsson sem situr í 4.sæti hjá Pírötum. Hans er búsettur á Akureyri og býður sig því fram í Norðausturkjördæmi. Nái Hans kjöri þann 29.október verður hann fyrsta transmanneskjan á Íslandi og jafnframt önnur transmanneskjan í gjörvallri Evrópu, til að komast á þing. Aðspurður segist hann fyrst hafa fengið áhuga á stjórnmálum þegar hann fór að sjá hvað allt er samtengt og hvernig flest það sem snýr að okkar mannlega lífi er pólitískt eða undir pólitískum áhrifum.

„Ég hef alltaf haft sterkar skoðanir og ekki hikað við að tjá þær. Ég hef kosið í öll þau skipti sem ég hef getað fyrir utan það tímabili þegar ég var úti í Svíþjóð en ég tengdi ekki endilega skoðanir mínar við stjórnmál fyrr en vel eftir tvítugt.“

Ögrandi að tilheyra minnihlutahópum
Áhugann fyrir stjórnmálum segir Hans hafa kviknað að einhverju leyti þegar hann var barn, þá aðallega þegar kom að kjördeginum en hann var haldinn virkilega hátíðlegur þá.
„Kosningakaffið var svolítið eins og að fara í fínustu fermingarveislu þar sem maður þarf  að heilsa einhverjum ókunnugum frænkum og dressa sig upp í hið allra fínasta, sem að mér fannst frábært sem barn.“

Svo komu táningsárin þar sem Hans afneitaði svolítið stjórnmálum; „helvítis pólitíkusar og allt það,“ bætir hann við.
En eftir því sem hann varð eldri fór að hann að verða meðvitaðri um áhrif stjórnmála á eigin skinni og hvernig það er ákveðinn stjórmálalegur gjörningur að vera til, eins og hann lýsir því.
„Sem hinsegin manneskja, sem trans manneskja og sem öryrki sjálfur hef ég fundið hvernig tilvist þessa minnihlutahópa og fólks utan samfélagskjarnans getur verið ögrandi og storkað samþykktum normum. Þess vegna fór mig að langa að gera meira, taka þátt og beita rödd minni meira en bara með atkvæði mínu og skrifum á samfélagsmiðlum.“

Fólkið í landinu svikið
Helstu baráttumál Hans eru mannréttindi. Hann undirstrikar að jafnt aðgengi allra til þátttöku í samfélaginu sé honum mjög hjartfólgið, enda réttindi okkar ekki jöfn ef við höfum ekki jafnt aðgengi.

„Við búum örfá í ómetanlega ríku landi með ótrúlegar náttúruauðlindir. Það er engin ástæða til þess að nokkur manneskja eigi að þurfa að líða skort.
Ég er gríðarlega spenntur fyrir auknu lýðræði og auknu valdi til fólksins. Að við sitjum ekki upp valdalaus milli alþingiskosninga. Að við, fólkið í landinu, getum veitt þingi raunverulegt aðhald og komið að málum og fengið að hafa áhrif er mjög mikilvægt.“

Þá bætir hann við að núverandi fyrirkomulag hafi fært of mikið vald í hendur of fárra sem síðan hafa ítrekað svikið fólkið í landinu sem ekki hafa nokkurt úrræði nema að bíða til næstu alþingiskosninga.

Skrímslabaninn
Aðspurður hvort að hann eigi sér einhverja sérstaka fyrirmynd í stjórnmálum segist Hans ekki vera mikið fyrir að hafa sérstakar fyrirmyndir. Hann reynir fremur að rýna í það sem fólk gerir rétt eða rangt og læra af mistökum annarra.
Hann segir það mikilvægast fyrir sér, nái hann kjöri, að forðast mistökin frekar en að reyna að vera fyrirmynd.

„Það eru óteljandi manneskjur sem hafa stigið fram úr almenningi, staðið með hugsjónum sínum, boðið sig fram til góðra verka og haft hugrekki til þess að standa frammi fyrir þjóð sinni og segja hvað þeim finnst. Sumir fá kjör, aðrir ekki.  Það er mér meira mikilvægt er að forðast mistökin en að vera eins og einhver fyrirmynd. Eins og skáldið sagði: sá sem berst við skrímslin þarf að passa sig á að verða ekki eitt sjálfur.“

Annars nefnir hann nokkra vel þekkta stjórnmálamenn sem hafa gert mikið rétt að hans mati, en þar má nefna: Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, en hann setti saman ríkisstjórn þar sem fólk með reynslu af sérhverjum málaflokki var sett yfir hann, t.d. læknir yfir heilbrigðisráðuneytinu og þar fram eftir götum.
Bernie Sanders, þingmaður Demókrata í Bandaríkjunum, Hans segir hann vera til fyrirmyndar vegna þess hversu samkvæmur sjálfum sér hann er og hefur verið í mörg ár.
Síðast nefnir hann, Angelu Villon, sem bauð sig fram til þings í Perú til að berjast gegn kynlífsþrælkun og mannsali á grundvelli þekkingar sinnar sem fyrrum vændiskona.

Ísland, spilltasta Norðurlandið til frambúðar?
Hans segir það ekki leika á neinum vafa að Píratar sé flokkurinn hans. Hann lýsir því  þegar hann gekk inn á fyrsta fund Pírata og var tekið með heiðarlega opnum örmum þar sem hann gat rætt hin ýmsu mál þjóðfélagsins á jafningjagrundvelli.
„Það er enginn pírati sem ég er algerlega sammála í öllu og það er enginn þrýstingur á að breyta því. Það má vera ósammála.
Grunnstefnan rímar svo vel við mínar heimspekilegu hugsjónir um veröldina eins og ég vil helst hafa hana að ég brosti eins og fífl við að lesa hana. Þegar ég svo sá hvernig stefnur urðu til, hversu raunverulegt lýðræðið er innan Pírata ætlaði ég ekki að trúa því.“

Hann segir Pírata vera jafn margvíslega og þeir eru margir en eigi það sameiginlegt að vilja Íslendingum frelsi og að kerfið vinni fyrir þá en ekki öfugt. „Svo að Ísland verði ekki spilltasta Norðurlandið til frambúðar. Það er eitthvað óhemju fallegt við það að við, svo ólík sem við öll erum, getum sameinast um þessi mikilvægu málefni.“

Tekið á spillingunni

Stefnumál Pírata eru nokkur en þeir vilja fyrst og fremst taka á þeirri spillingu sem hér finnst svo að það sé hægt að treysta Alþingi aftur, segir Hans. Þá vilja þeir breyta kerfunum og skapa betra og réttlátara stjórnmálaumhverfi á Íslandi. Virða það loforð sem þjóðinni var gefið við stofnun lýðveldisins og hefur enn ekki verið efnt, að ný stjórnarskrá, skrifuð af þjóðinni, verði tekin í gagnið. Þeir vilja að eigur þjóðarinnar séu nýttar með hag allrar þjóðarinnar að leiðarljósi, að arði af okkar ótrúlegu auðlindum sé réttlátara dreift.
„Við viljum að heilsa Íslendinga og aðgengi að nauðsynlegri heibrigðisþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu og tannheilbrigðisþjónustu sé ekki bundin við efnahag.  Við viljum að íslenska þjóðin fái meira vald en hún hefur, að þú og ég fáum tæki og tól til að veita þingi aðhald.
Við viljum taka á þeirri spillingu sem hér finnst og reyna að gera það þannig að það sé hægt að treysta Alþingi.“

Hans er með bein í nefinu
Hans segist hafa fengið nánast eingöngu góð viðbrögð við framboði hans. Hann hafði lengi velt því fyrir sér að bjóða sig fram en í þetta skiptið var hann einatt hvattur til þess. Helsta gagnrýnin sem honum hefur borist er að það sé að einhverju leyti ótrúverðugt að öryrki geti sinnt alþingisstörfum. En Hans svarar því hátt og skýrt:

„Ég er ekki fyrsti öryrkinn sem að býður sig fram og vonandi ekki sá síðasti. Þau vandamál sem ég er að kljást við sem gera mig að öryrkja eru aðalega stoðkerfistengd. Hausinn á mér er í góðu lagi og ég veit hvenær ég þarf að stoppa. Ég er tilbúinn að leggja ýmislegt á mig til að taka þátt í þeim bráðnauðsynlegu og spennandi breytingum sem eru framundan og ef þetta verður mér um of hef ég nægilegt bein í nefinu til að viðurkenna það og stíga til hliðar.“

Hans hvetur alla sem hafa spurningar eða vilja vita meira um stefnumál Pírata að kíkja við á kosningaskrifstofu þeirra í Amaróhúsinu.

Sjá einnig:

Sindri Geir Óskarsson, Vinstri Græn

Melkorka Ýrr Yrsudóttir, Sjálfstæðisflokkurinn

Bjartur Aðalbjörnsson, Samfylkingin

Jónas Björgvin Sigurbergsson, Björt Framtíð

Snorri Eldjárn Hauksson, Framsókn

Hildur Bettý Kristjánsdóttir, Viðreisn

Sambíó

UMMÆLI