Vinna við formlega og heildstæða umferðaröryggisáætlun ekki hafin

Vinna við formlega og heildstæða umferðaröryggisáætlun ekki hafin

Um þessar mundir er rúmt ár síðan bæjarstjórn Akureyrar samþykkti að hefja undirbúning að gerð umferðaröryggisáætlunar fyrir bæinn eftir þrýsting af hálfu íbúa í Oddeyrargötu.

Íbúar í Oddeyrargötu á Akureyri sendu áskorun á bæjarstjórn Akureyrar í nóvember 2021 að grípa til tafarlausra aðgerða til að tryggja öryggi íbúa Oddeyrargötunnar vegna of mikillar og of hraðrar umferðar í götunni. 

Sjá einnig: Neyðarkall frá íbúum Oddeyrargötu vegna bílaumferðar

 Aðalsteinn Svan Hjelm, íbúi í Oddeyrargötu, segir að ári eftir samþykktina finnist honum enn eins og lítið hafi breyst.

„Varðandi framkvæmdir í Oddeyrargötunni þá fengum við staðfest frá Andra Teitssyni í fyrra, eftir áralanga baráttu okkar fyrir bættu umferðaröryggi, að settar yrðu tvær hraðahindranir í götuna okkar ásamt því að gatnamótin við Amtsbókasafnið þar sem Oddeyrargata og Brekkugata mætast yrðu hækkuð upp til að hægja þar einnig á umferðinni. Við erum við sama heygarðshornið þar. Þrátt fyrir fjölda fyrirspurna beint til bæjarstjóra og Andra og fyrirspurna í gegnum íbúagáttina höfum við engin svör fengið á þessu ári. Ef við þekkjum vinnubrögð bæjarins í okkar málum þá ríkir yfirleitt þögn á þessum tíma fram í apríl, en þá er víst of stutt í sumarfrí og því verður ekkert gert. Þetta er taktík sem eflaust hefur verið notuð í ár og áratugi til að drepa okkar máli okkar á dreif þrátt fyrir fögur fyrirheit,“ segir Aðalsteinn um málið.

Sjá einnig: 20 þúsund óku yfir leyfilegum hámarkshraða á átta dögum

Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, segir í svari við fyrirspurn Kaffið.is um málið að vinna við formlega og heildstæða umferðaröryggisáætlun sé ekki hafin.

„En hitt er svo allt annað mál að við erum sífellt að vinna að margvíslegum umbótaverkefnum á sviði umferðaröryggis. Þar vil ég nefna sérstaklega leiðir barna til og frá skóla og íþróttum sem hefur verið áhersla á að tryggja. Einnig má nefna úrbætur á Hörgárbraut við Stórholt, miklar endurbætur á Skarðshlíð til dæmis við Sunnuhlíð endurbætur á Höfðahlíð, gangstétt við Þingvallastræti á milli Byggðavegar og Mýrarvegar, endurbætur á Tryggvabraut, lækkun hámarkshraða á Drottningarbraut/Eyjafjarðarbraut og fleira,“ segir Andri.

Halla Björk Reynisdóttir, formaður Skipulagsráðs segir að bæjarstjórnin sé enn í undirbúningsfasa þegar kemur að umferðisöryggisáætlun og verið sé að leita að aðilum til þess að taka þátt í gerð slíkrar áætlunar með bænum.

Sjá einnig: Bæjarstjórn samþykkir að hefja undirbúning að gerð umferðaröryggisáætlunar

22 sveitarfélög fylgja í dag umferðaröryggisáætlun en samkvæmt Umferðarstofu þjónar hún þeim megintilgangi að ,,..greina stöðuna, finna slysstaði, setja sér markmið og gera aðgerðaráætlun“. Jafnframt segir að markmiðið með henni sé að „til sé grunnur að samræmdum og markvissum vinnubrögðum sveitarfélaga og að þannig sé stuðlað að skilvirkari forgangsröðun verkefna í umferðaröryggismálum“.

Sambíó

UMMÆLI