Íbúar í Holta- og Hlíðarhverfi áhyggjufullir – Akureyri verið svelt síðustu áratugi varðandi fjármagn til samgöngubóta

Margir íbúar í Holta- og Hlíðarhverfi á Akureyri hafa lýst yfir áhyggjum á ástandi gangbrauta í hverfinu. Þann 16 nóvember síðastliðinn var ekið á konu sem var úti að ganga með þeim afleiðingum að hundurinn dó og konan fótbrotnaði. Atvikið átti sér stað á gangbraut við Hörgárbraut en fyrr í haust varð þriggja bíla árekstur við sömu gangbraut.

Akureyri svelt varðandi fjármagn til samgöngubóta

Í tillögu að deiluskipulagi frá árinu 2010 er gert ráð fyrir því að gangbrautin yrði aflögð þegar undirgöng yrðu tekin í gagnið og með því myndi umferðaröryggi aukast til muna. Ekkert hefur þó verið gert til að fylgja eftir tillögunni síðan hún var sett fram.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar segir að bærinn bíði eftir því að Alþingi setji pening í samgönguáætlun vegna framkvæmdarinnar á undigöngunum þar sem Hörgárbaut sé hluti af Þjóðvegi 1. Undirgöngin kosti um 150 milljónir.

„Að okkar mati hefur Akureyri verið svelt síðustu áratugi varðandi fjármagn til samgöngubóta. Breyting varð á þessu fyrir rúmu ári og eru ýmsar framkvæmdir hafnar til að bæta öryggið. Bæði Vegagerðin og Akureyrarbær hafa óskað eftir því, amk frá árinu 2011, að göngin verði sett á samgönguáætlun.“

Árið 2014 gaf Vegagerðin út bækling þar sem kemur fram að gönguþverun án ljósastýringar ætti ekki að vera þar sem eru fleiri en ein akrein í hvora átt. Hörgárbraut er fjórar akreinar á þeim stað þar sem slysin áttu sér stað en engin ljósastýring er við gangbrautina.

Eiríkur segir vinnu við það að skoða öryggismálin á þjóðveginum, meðal annars við umrædda gangbraut hafi hafist fyrir nokkru síðan. Akureyrarbær treysti á að Vegagerðin fái stuðning ríkisins til þess að fylgja málum sínum eftir.

Þriggja bíla árekstur varð við gangbrautina í haust

Íbúar áhyggjufullir

Auður Ólafsdóttir íbúi í hverfinu vakti athygli á málinu í lokuðum Facebook hóp íbúa hverfisins. Hún segir að ástandið sé slæmt víða í hverfinu. „Í öllum öðrum hverfum er kastari sem lýsir á gangbrautir, alls staðar nema í Glérárhverfi. Það eru engir kastarar sem lýsa á og vekja athygli á gangbrautum þó þær séu nokkuð margar í hverfinu í kringum Bogann og Glerárskóla. Margir, flest börn og ungmenni, nota þær þegar þau eru í leið í skólann og í Bogann.“

Í bókun hverfisnefndar frá árinu 2011 segir að það vanti merkingar á gangbrautir víða í hverfinu til dæmis í tengslum við leiðir barna til skóla. Bókunin er enn í vinnslu hjá bænum.

Fleiri íbúar hverfisins hafa látið í ljós áhyggjur af ástandinu. Einn íbúi bendir á það að það vanti beina línu á veginn við gangbrautina vegna þess að ef bíll stoppar fyrir gangandi vegfaranda er auðvelt að fara einfaldlega framúr honum og bruna yfir gangbrautina. Það bjóði hættunni heim. Margir íbúar hafa einnig orðið varir við það að bílar virðast ekki stoppa á rauðu ljósi við umferðarljósin nær hringtorginu við N1. Við þau ljós varð banaslys árið 1986 þegar maður varð fyrir bifreið.

Framkvæmdir hafnar víða til að auka umferðaröryggi

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar

Eiríkur Björn segir í samtali við Kaffið að umferðaröryggismál í gegnum Akureyri hafi verið í ítarlegri skoðun hjá Vegagerð og Akureyrarbæ og að framkvæmdir séu þegar hafnar við nokkur gatnamót til þess að auka öryggi og meira sé framundan.

Vinnuhópur hafi unnið að tillögum að auknu öryggi við Þjóðveg 1 sem liggur um Akureyri og séu þær langt á veg komnar. „Sem dæmi má nefna eru aðgerðir við gangbrautarljósin við Stórholt í umferðisöryggisrýni hjá Vegagerðinni og að öllu óbreyttu verða framkvæmdir boðnar út í næsta mánuði,“ segir Eiríkur.

Í skoðun er hvort setja eigi strax upp ljósastýringu eða aðrar lausnir til að auka öryggi við þessa tilteknu gangbraut. Hann segir framkvæmdir til að auka öryggi við Síðuskóla hafnar og að tillögur um framkvæmdir við Giljaskóla liggi einnig fyrir.

Eiríkur segir mikla vinnu hafa verið lagða í það að kortleggja vandann undanfarin ár í öllum bænum.

„Til að nefna nokkur dæmi þá hafa gönguleiðir barna til og frá skólum bæjarins verið skoðaðar, bættar útfærslur af gangbrautarlýsingu og merkingum liggja fyrir og snjómoksturplani hefur verið breytt. Akureyrarbær hefur farið í endurbætur og fjölgun á göngu- og hjólaleiðum í bænum auk gangbrauta sl. ár. Lýsing hefur verið bætt á nokkrum stöðum og má þar m.a. benda á gangbraut yfir Dalsbraut við Norðuslóð/Klettaborg. Framkvæmdir eru hafnar á nokkrum stöðum, betri ljós og skilti hafa verið pöntuð og munu framkvæmdir halda áfram næsta sumar. Nýbúið er að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir Melgerðisásinn og Skarðshlíðina og þar er að finna tillögur að nýjum gönguþverunum með hraðahindrunum.“

Sjá einnig:

Ekið á vegfaranda og hund á Akureyri

 

 

 

 

 

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó