100 konur og 1 karl í Hafnarstræti

100 konur og 1 karl í Hafnarstræti

Í tilefni af bleikum október og árlegri vitundarvakningu um krabbamein hjá konum má sjá gluggainnsetninguna ‘TÉKK‘ í Hafnarstræti 88, öðru nafni „Gamli bankinn.  Þar í kjallara hússins er vinnustofa myndlistarkonunnar Brynju Harðardóttur Tveiten. Innsetningin er samstarf hennar og systur hennar Áslaugar sem rekur skrautmuna- og vintagesöluna Fröken Blómfríður.

Tilgangur innsetningarinnar er að minna fólk á mikilvægi þess að þreifa brjóst sín reglulega sem og að þiggja boð þegar þau berast í brjósta- og leghálsskimun. Því fyrr sem krabbamein greinist því meiri líkur eru á lækningu. Innsetningin sýnir hóp skrautstytta, 100 konur og 1 karl. En á móti hverjum 100 konum sem greinast með brjóstakrabbamein greinist 1 karlmaður. Stytturnar koma úr öllum áttum og eflaust tengja margir við þær, ekki síst frá heimilum fyrri tíma.  Þær eru teknar úr sínu hefðbundna skrautsamhengi, ólíkar, sumar kitch, aðrar klassískar, dramatískar, veðraðar, litlar og stórar en standa þarna í samstöðu og til fyrirmyndar. Rauðmerktar staðfesta þær að þær ‚tékki‘ brjóst sín reglulega.

Brynja greindist 2021 með brjóstakrabbamein og fór í krefjandi meðferð í kjölfarið. „Ég er laus við krabbameinið í dag og er afar þakklát að vera á lífi. Með því að taka þátt í bleikum október viljum við systur sýna lit, þakklæti, láta gott af okkur leiða og lífga upp á umhverfið. Innsetninguna má sjá utan frá og við hvetjum fólk að gera sér ferð í Hafnarstrætið. Vinnustofan verður svo opin föstudagskvöldið 6. október frá kl. 17 til kl. 21 og við vonumst til að eiga gott spjall við gesti og gangandi. Stytturnar verða til sölu og mun allur ágóði renna til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis“.

Sambíó

UMMÆLI