286 mál komu upp hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra

Lögreglustöðin

Mynd: Kaffið.is/Jónatan.

Mikið var um að vera hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra sl. viku, 18. – 24. júní en 286 mál komu upp. Sérstaklega mikið var um of hraðan akstur og akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Lögreglan hefur verið dugleg að hraðamæla bifreiðar á Hringveginum við Akureyri og af þessum 52 ökumönnum sem teknir voru fyrir of hraðan akstur í vikunni voru 20 þeirra erlendir ferðamenn.

Borgaði tæplega 90.000 kr. í hraðasekt

Sá ökumaður sem var tekinn á mestum hraða mældist á 134 km/klst. þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Ökumaðurinn, sem var erlendur ferðamaður, fékk dágóða sekt vegna brotsins og greiddi 86.250 kr. á vettvangi.
Þess má geta að í vikunni áður, þegar bíladagar stóðu yfir á Akureyri, var enginn tekinn fyrir ölvunarakstur en þó voru 200 teknir fyrir of hraðan akstur.

Í vikunni 18. -24. júní voru:

  • 52 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur.
  • 3 ökumenn teknir fyrir ölvunarakstur.
  • 6 ökumenn teknir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna.
  • Einn þeirra reyndist þegar sviptur ökuréttindum.
  • Tvö minniháttar fíkniefnamál sem leystust á vettvangi.
  • 6 ökumenn teknir við að tala í farsíma við akstur, en fyrir skömmu voru sektirnar fyrir umrætt brot hækkaðar úr 5.000 kr. í 40.000 kr.

Það er ósk lögreglu með nýlegri hækkun sekta að ökumenn leggi símana frá sér rétt á meðan þeir eru að aka bifreiðum eða fjárfesti í þráðlausum búnaði þar sem það er mun ódýrara en sektirnar.

Eldur í bifreið á Glerártorgi
Laust fyrir klukkan 14:00 á fimmtudaginn kom tilkynning um eld í bifreið við verslunarmiðstöðina Glerártorg. Þegar lögreglan kom á vettvang logaði afturstuðarinn á bifreiðinni. Lögreglan náði að slökkva eldinn með slökkvitæki en ekki er vitað af hverju kviknaði í stuðaranum. Heppilega slasaðist enginn í atvikinu.

Neyðarlínu barst neyðarskeyti frá lítilli flugvél

Síðastliðinn laugardag barst Neyðarlínu neyðarskeyti frá lítilli Cessna flugvél frá jörðu við Akureyrarflugvöll. Neyðaráætlun fyrir flugvöllinn var sett í gang þar sem allt var mjög óljóst. Aðgerðarstjórn viðbragðsaðila á Akureyri var mönnuð og einnig Samhæfingarstöð Almannavarna í Reykjavík. Um 30 mínútum eftir að tilkynningin barst fannst sendirinn en hann var í flugvél sem var lagt í skýli við Akureyrarflugvöll og var um bilun að ræða í sendinum.

Fréttin birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi í reglulegum dálki: Sönn norðlensk sakamál. Norðurland kemur út annan hvern fimmtudag frítt í 13.000 eintökum á Norðurlandi. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó