Af köttum

Af köttum

Hrafndís Bára Einarsdóttir skrifar

Það hefur ekki farið fram hjá heimsbyggðinni að kettir eru Akureyringum hugleiknir. Hvar sem maður drepur niður fæti í þessari kosningabaráttu er næsta víst að rekast á manneskju sem brennur fyrir þessu málefni. Sem er í sjálfu sér í góðu lagi. Við búum í samfélagi ekki aðeins manna, heldur dýra líka.

En hvers vegna þetta uppþot yfir annars værukærum skepnum? Jú, þetta hófst allt með ágætis dæmi um vonda stjórnsýslu. Það að geta hallað sér aftur í stólnum á góðum bæjarstjórnarfundi og sagt si svona, án þess víst að meina það skilst mér núna, ,,eigum við ekki bara að banna þetta” og úr verður, sannar bara að geðþóttaákvarðanir eru oftar en mann myndi langa til að vita ofan á ígrunduðum og upplýstum ákvörðunum.

En hvað nú og hvernig skal leysa vandann? Einhverjir gætu sagt að hann sé nú þegar leystur. Það er jú búið að afnema hugmyndir um bann við lausagöngu katta. Nema ef vera skyldi á nóttunni. En vandinn liggur aftur hjá stjórnsýslunni. Ekki hefur þessu sveitarfélagi ennþá þótt ástæða til að veita einhversskonar þjónustu til handa gæludýraeigendum og sparað þar með þær krónur sem falla sveitarfélaginu til handa frá skepnuhöldurum. Því á ég erfitt með að sjá fyrir mér hvaða manngrey verður sett í það að ræfla inn næturdýrunum sem þverbrjóta allar útivistarreglur.

Og þá að merg málsins. Hverjar eru þá lausnirnar? Ef við stöldrum við og sjáum hvaða framboð hafa raunverulega unnið að þessu málefni og gert þessum málaflokki góð skil þá má sjá að það voru Píratar sem komu á skýru og góðu regluverki í sambandi við dýrahald og heitir í dag DÝR. Það kom nefnilega í ljós að til að hvetja til ábyrgara gæludýrahalds og þar með úr núningi við aðra samborgara, var að veita þeim tilhlýðilega og samþætta þjónustu. Sem sjáiði til, þau borga fyrir.

Má ég þá bæta við að það voru Píratar sem töluðu fyrst fyrir rýmkun reglna um gæludýrahald í félagslegu húsnæði og drepum við þá þar aðeins niður fæti í meðal annars geðheilbrigðismálum. En það er allt önnur ELL.A.

Ég velti því fyrir mér hvort við getum kannski ekki bara sammælst um að lausnin er til og snúið okkur núna að því að komast að því hvernig við hættum að brjóta á mannréttindum fatlaðra eða koma öllum samborgurum í hús?

Hrafndís Bára er oddviti Pírata á Akureyri

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó