Akureyrskar stelpur ná ótrúlegum árangri erlendis í listhlaupi

Íslenskar stúlkur í listhlaupi á skautum hafa náð svakalegum árangri í keppnum erlendis undanfarið. Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir er 11 ára gömul frá Akureyri og er einn skautari úr Afrekshópi Skautasambands Íslands í keppnisflokknum Advanced Novice. Ísold náði sögulegum árangri í bæði Tirnavia Ridell Ice Cup keppninni í Slóvakíku og Leo Scheu Memorial keppninni í Austurríki þar sem hún landaði 4. sæti í báðum keppnum með 86.88 stig í fyrri keppninni og 79.29 stig í seinni. Með þessum tölum setti hún nýtt stigamet í flokknum hjá íslenskum skautara sem hafði staðið frá byrjun árs 2016.

Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir eftir keppni erlendis.

Stór hópur skautara á vegum Skautasambands Íslands fóru í keppnisferð til Riga í Lettlandi og tóku þátt í keppninni Volvo Open Cup dagana 8.-12. nóvember. Keppendurnir eru frá Skautafélagi Reykjavíkur, Skautafélaginu Birninum og Skautafélagi Akureyrar, en nokkrir af þessum keppendum eru hluti af afrekshópi Skautasambands Íslands.
Emelía Rós Ómarsdóttir frá SA keppti í Junior flokki, sem er einn keppnisharðasti flokkurinn, og endaði í 25. sæti með 86.09 stig.

Marta María Jóhannsdóttir við keppni.

Marta María Jóhannsdóttir landaði 9. sæti
Í Advanced Novice flokknum voru fimm skautarar, þar af fjórir skautarar frá Skautafélagi Akureyrar.
Marta María Jóhannsdóttir náði þar áberandi góðum árangri með því að hafna í topp 10 af 34 keppendum, eða 9. sæti. Marta María er virkilega efnilegur skautari og hefur hafnað í 1. sæti í sínum keppnisflokki á öllum mótum hérlendis það sem af er vetri en hún hóf keppni í flokknum fyrir ofan, Junior flokki, í haust.
Rebekka Rós Ómarsdóttir fylgdi á eftir í 15. sæti með 70.86 stig, Aldís Kara Bergsdóttir í 17. sæti með 70.60 stig og Ásdís Arna Fen Bergsveinsdóttir í 24. sæti með 63.67 stig.

Íslensku stúlkurnar eru að setja met í flestum flokkum í listhlaupi á skautum sem sést hefur hér á landi og eru íþróttinni til algjörrar fyrirmyndar. Það verður spennandi að fylgjast með þessum stúlkum í íþróttinni áfram.

 

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó