„Án efa stærsta sýning LA í mörg ár“

„Án efa stærsta sýning LA í mörg ár“

Nú eru miðar á allra síðustu sýningar Chicago í Samkomuhúsinu á Akureyri komnir í sölu. Upprunalega stóð til að hætta sýningum í byrjun apríl en Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, segir í samtali við Vikublaðið að vegna mikillar eftirspurnar hafi það hreinlega ekki verið hægt. Síðasta sýning verður nú 29. apríl næstkomandi.

Sjá einnig: „Við erum með heimsklassauppsetningu á frægu leikriti og það er bara ekki sjálfsagt“

Menningarfélag Akureyrar óskaði eftir viðbótarframlagi frá Akureyrarbæ upp á fjórar milljónir króna til þess að geta framlengt sýningartímabil söngleiksins. Bæjarráð tók erindið fyrir og samþykkti að veita MAk þrjár milljónir króna.

„Chicago er án efa stærsta sýning LA í mörg ár og hefur aðsókn og eftirspurn farið fram úr björtustu vonum. Sýningin hefur algjörlega slegið í gegn hjá áhorfendum,“ segir Marta Nordal leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar í Vikublaðinu.

„Aðsóknin á Chicago hefur góð áhrif á allan bæinn því sýningin dregur að sér gesti frá öðrum sveitarfélögum og þeir nýta sér þá ýmsa þjónustu sem í boði er í bænum í leiðinni, svo sem veitingastaði, gistingu og fleira. Þetta kemur sér því vel fyrir marga og sýnileiki bæjarins eykst. Við erum afar stolt af þessari sýningu og þakklát fyrir stuðninginn.“

Nánari umfjöllun má finna í Vikublaðinu og á vef Vikublaðsins.

Sambíó

UMMÆLI