Arnór Þór næstmarkahæstur í naumum sigri

Arnór Þór átti góðan leik í kvöld

Arnór Þór átti góðan leik í kvöld

Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætti því tékkneska í fyrsta leik liðanna í undankeppni fyrir EM 2018 í Laugardalshöll í kvöld. Þrír Akureyringar voru í sextán manna hópi Geirs Sveinssonar en aðrir tveir, þeir Sveinbjörn Pétursson og Geir Guðmundsson voru utan hóps ásamt Janusi Daða Smárasyni.

Leikurinn var jafn og spennandi á nær öllum tölum en íslenska liðið sýndi mikinn karakter og vann að lokum dramatískan eins marks sigur, 25-24.

Guðmundur Hólmar Helgason lék stærstan hluta leiksins í hjarta varnarinnar ásamt Ólafi Guðmundssyni. Guðmundur kom lítið við sögu í sóknarleiknum en náði þó að gefa tvær stoðsendingar með því að hefja hraðaupphlaup auk þess að standa vörnina nokkuð vel.

Arnór Þór Gunnarsson var á sínum stað í hægra horninu og lék allan leikinn að frátöldum örfáum mínútum þegar hann þurfti að yfirgefa völlinn eftir höfuðhögg sem hann hlaut eftir að hafa fiskað ruðning á tékkneskan sóknarmann. Arnór Þór átti afar góðan leik, skoraði fimm mörk úr sjö skotum og var næstmarkahæsti leikmaður Íslands.

Arnór Atlason
hóf leik á varamannabekknum en kom inn um miðbik fyrri hálfleiks og stjórnaði sóknarleiknum af mikilli festu. Arnór komst ekki á blað en átti fjöldann allan af mikilvægum sendingum.

Mikilvægur sigur fyrir strákana okkar sem mæta Úkraínu ytra næstkomandi laugardag en strákarnir halda utan í nótt.

Sjá einnig

Arnór Atlason í nærmynd – Ólíklegt að maður endi í Þórsbúningnum

Arnór Þór Gunnarsson í nærmynd – Leit upp til Valda Gríms

Guðmundur Hólmar í nærmynd – Eyrarland besti staður í heimi

 

UMMÆLI