Bæjarstjórn vill kanna mengun frá skemmtiferðaskipum betur

Margir hafa áhyggjur af því að skemmtiferðaskipin séu að menga mikið með komu sinni til bæjarins.

Það hefur verið mikið í umræðunni undanfarið að mikil umferð skemmtiferðaskipa gæti hugsanlega verið að valda óhóflegri mengun en ríflega 120 skemmtiferðaskip stoppuðu á Akureyri í sumar.
Vikudagur greinir frá því að bæjarstjórn Akureyrar hafi nú falið umhverfis- og mannvirkjaráði að afla frekari gagna um mengun frá skemmtiferðaskipum í Akureyrarhöfn. Preben Jón Pétursson oddviti Bjartrar framtíðar í bæjarstjórn Akureyrar óskaði eftir umræðu um mengun skipa sem leggja að í höfninni á síðasta bæjarstjórnarfundi.

„Þessi mál hafa ekki verið skoðuð til hlýtar og ef við ætlum að vera umhverfisbær og kolefnisjafna andrúmsloftið, þá er þetta hluti að því; að kanna frekar mengun skipa. Til þess að geta tekið ákvörðun þarf að vita allar staðreyndir og hvernig hægt sé að bregðast við. Okkur leyfist ekkert að segja pass í þessu máli,“ segir Preben.

Umhverfisstofnun ætlar einnig að hefja eftirlit með eldsneytisnotkun skipa á næstunni í kjölfar umræðunnar með sérstakri áherslu á brennisteinsinnihald. Stefnt er að því að eftirlitið hefjist núna fyrir áramót. Næsta sumar er svo stefnt á að gera sérstaka rannsókn til að staðreyna hvers konar olíu skemmtiferðaskip sem hingað koma eru að brenna.

UMMÆLI

Sambíó