Ég elska internetiðInga Dagný Eydal skrifar:

Ég elska internetið

Já ég viðurkenni það, ég elska Facebook, og ég elska Instagram og Messenger og þetta bara allt saman, mest alnetið samt. Ég vildi reyndar alveg vera ein af þessum viljasterku meinlætakonum sem taka sér frí frá Facebook eða jafnvel loka aðganginum sínum, mér finnst það megatöff en ég er bara ekki svoleiðis. Ég er alltof innhverf, alltof löt eða bara þá hentar það mér óskaplega vel að vera mikið á samfélagsmiðlum.

Svo finnst mér alltof margt hreinlega jákvætt og gott til að tíma að missa af því. Get nefnt um það fjölmörg dæmi og hér eru nokkur:

Hóparnir á Messenger s.s. fjölskylduhóparnir þar sem hægt er til að mynda að skiptast á myndum af börnunum, miðla fréttum og „ekki” fréttum og deila sérstökum húmor sem bara viðkomandi skilja. Systir mín orðaði það svo að „þetta sé eins og að vera í góðu fjölskylduboði” og það er sannarlega rétt. Fólkið sem maður saknar alla daga, og er dreift um borg og bý, lönd og höf getur spjallað og hlegið saman í rauntíma, það er dásamlegt.

Vinnuhóparnir, vinir og vinkonur, kórar og félagar, bara allir þeir sem eiga eitthvað sameiginlegt, eiga þar mun auðveldara að eiga samskipti og skipuleggja hittinga og verkefni.

Þarna þarf reyndar að fara varlega og passa að skrifa í rétta hópa. Ég hafði eitt sinn skipulagt hóp með vinum og vandamönnum sem voru að aðstoða mig við flutninga og þar á meðal var góð vinkona. Ég deildi síðan mjög svo persónulegum upplýsingum með vinkonu minni eitt kvöldið, en í fljótræði og flumbrugangi, gleymdi ég því að ég var ekki bara að tala við vinkonu mína heldur allan flutningshópinn. Ef ég hef einhverntíma séð síma verða rauðglóandi þá var það þegar þeir fyrstu hringdu í ofboði til að segja mér að skrúfa fyrir upplýsingarnar. Þessu var ekki hægt að eyða og uppákoman var hin vandræðalegasta….en sem betur fer var þetta allt fólk sem þekkti mig vel og hafði ágætis húmor fyrir ruglukollunni mér.

Facebook hjálpar mér til að fylgjast með því sem gerist í menningarlífi, fylgjast með fréttum, fylgjast með vinum og vandamönnum, fylgjast með stjórnmálum. Ég er ekkert sérlega mannblendin alltaf og Facebook bjargar mér frá því að verða eins og einsetumaður á fjalli, vitandi ekki hvað er að gerast nær og fjær. Það sem getur þó gerst á Facebook er að maður fær líka hinar upplýsingarnar,- þær sem koma manni í raun ekki við eða maður vill ekki fá á vegginn sinn, rasisma, fordóma, dómhörku og illgirni. En þannig lærir maður líka að velja sér vini. Það er reyndar líka alltaf val, hvort maður tekur þátt í mannskemmandi umræðum og illu umtali en þegar fólk sem ég þekki ekki mjög mikið kýs að deila tilfinningum sínum með okkur hinum þá finnst mér það oft mjög gefandi. Við erum jú öll að glíma við sorgir og sigra og það er lærdómsríkt og gott að sjá hvernig aðrir takast á við tilveruna.

Instagram opnaði fyrir mér heim þeirra sem deila ljósmyndum og þar gleymi ég mér í fallegu myndefni. Álitsgjafarnir svonefndu hafa kyrfilega farið framhjá mínum aðgangi og það er líklega einn af kostunum við að vera kominn á miðjan aldur. Sama er með Snapchat, þar bý ég svo vel að eiga ekki aðgang að öðrum en börnum, barnabörnum og örfáum nánum vinum. Facetime og Skype er snilld og hafa gert svo ólíkt léttbærara, að hafa ekki börn og barnabörn nálægt okkur. Mín kynslóð man svo alltof vel þá tíð að það var skelfilega dýrt að hringja til útlanda og ekki bara til útlanda heldur líka í aðra landshluta og það var helst ekki gert nema um líf og dauða væri að tefla,- og jafnvel þá varð að hafa hraðann á.

Í dag spjalla ég við lítinn snáða í Vermont oft í viku, syng með honum og bulla án þess að hafa áhyggjur af kostnaði. Alnetið lifi! Ég gæti haldið lengi áfram. Netflix leysti vanda hjóna sem ég þekki og sem aldrei geta komið sér saman um sjónvarpsefni, Spotify sparar mér marga hillumetra af geisladiskum, á netinu panta ég varning, ferðalög og skyndibita og það nýjasta gerðist fyrir síðustu helgi, ég pantaði helgarinnkaupin á netinu.

Reyndar fela kostirnir í sér gallana líka eins og með svo margt annað. Þannig enda ég kannski á því að þurfa aldrei að fara neitt og aldrei að hitta neinn. Spurningin er bara hvað kom á undan, eggið eða hænan og hvort Alnetið sé að bjarga okkur frá einsemd eða valda okkur einsemd.

Líklega er það sín ögnin af hverju en ég mun í það minnsta halda áfram að njóta tækninnar, spjalla og spekúlera á netinu en ég ætla líka að láta ekki tæknina taka alveg af mér völdin. Ennþá tölum við hjónin saman, í það minnsta ef við erum í sama herbergi.

Pistillinn birti Inga Dagný upphaflega á bloggsíðu sinni Ræða og Rit.


UMMÆLI