Fékk verðlaun á Bessastöðum fyrir smásögu á ensku

Mynd frá afhendingunni á Bessastöðum í dag. Mynd: www.ma.is

Magdalena Sigurðardóttir nemandi í fjórða bekk við Menntaskólann á Akureyri tók við verðlaunum á Bessastöðum í dag fyrir smásögu sem hún skrifaði á ensku. Frú Eliza Reid afhenti verðlaunin til nemenda í dag en um er að ræða smásagnasamkeppni sem FEKI, félag enskukennara, efnir til á hverju ári fyrir grunn- og framhaldsskólanema. Þema keppninnar í ár var Hætta (e. danger). Þetta kemur fram í frétt á vef Menntaskólans á Akureyri.

Það er víst nóg að gera hjá þessari ungu og efnilegu konu en Magdalena nýtir ferðina til Reykjavíkur vel þar sem hún er nú ásamt um 300 MA-ingum úr þriðja og fjórða bekk í starfskynningum í höfuðborginni. Á laugardaginn fara nemendur MA á Háskóladaginn þar sem þeir kynna sér framhaldsnám.

Auk þess er Magdalena að undirbúa sig fyrir þátttöku í sjónvarpsþættinum Gettu Betur fyrir hönd MA en lið MA mætir liði MR á föstudagskvöld í fjögurra liða úrslitum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó