Framlögin komin til fórnarlamba jarðskjálftans í Mexíkó

Eins og við greindum frá á Kaffinu í haust settu þær Sandra Stephany Mayor og Bianca Sierra leikmenn Þór/KA af stað söfnun fyrir fórnarlömb jarðskjálftanna í Mexíkó. Mayor og Sierra koma báðar frá Mexíkó og Mayor er frá Mexíkóborg þar sem mestu hörmungarnar riðu yfir.

Söfnunin var ætluð til aðstoðar fólki sem varð fyrir barðinu á skjálftunum. Nú hafa þær komið söfnunarfénu á áfangastað og mun það hjálpa sjö fjölskyldum við viðgerðir á mikið skemmdum húsum þeirra.

Jarðskjálftarnir áttu upptök sín skammt frá Mexókóborg. Stærsti skjálftinn er sá öflugasti í heila öld á þessu svæði og olli hann miklum skaða, hundruð létu lífið og tjón varð á fjölmörgum byggingum. 

Söfnunin fór fram á netinu undir nafninu, „The World for Mexico“ eða Heimurinn fyrir Mexíkó. Framlög komu víða að, meðal annars frá Íslendingum. Ásamt því að halda úti söfnun á netinu efndu þær til happdrættis fyrir lokaleik Íslandsmeistara Þór/KA í sumar þar sem verðlaunin voru árituð treyja frá Stephany Mayor sem hún spilaði í með mexíkóska landsliðinu á HM 2015. 

Núna í vikunni voru þær Bianca og Fanny á ferð í Tepalcingo, litlum bæ suður af Mexíkóborg. Þar fundu þær sjö fjölskyldur sem höfðu misst allt sitt og dugði söfnunarféð til að kaupa það sem þurfti til að endurbyggja heimili þessara fjölskyldna.

Á Þórsport.is má sjá myndir sem Bianca Sierra sendi frá vettvangi. Á myndinni með fréttinni eru þær við innkomuna í þennan bæ, Tepalcingo. Fleiri myndir eru svo í myndaalbúmi hér. Þær vilja koma á framfæri þakklæti til allra sem tóku þátt í söfnuninni og lögðu sitt af mörkum til að hjálpa þeim sem urðu fyrir barðinu á jarðskjálftunum.

Sjá einnig:

Sierra og Mayor setja af stað söfnun fyrir fórnarlömb í Mexíkó

Sandra Mayor vinsæl um allt land: Sonur Mána á X-inu fékk sér merkta Þór/KA treyju

Bjóða upp áritaða treyju til styrktar fórnarlömbum í Mexíkó


UMMÆLI

Sambíó