Sandra Mayor vinsæl um allt land: Sonur Mána á X-inu fékk sér merkta Þór/KA treyju

Sandra Stephany Mayor er frábær fyrirmynd

Þór/KA hafa slegið í gegn í Pepsi deild kvenna í sumar. Liðið situr í efsta sæti deildarinnar með 8 stiga forskot og á enn eftir að tapa leik. Stelpurnar hafa unnið 11 af 13 leikjum sínum í sumar og gert 2 jafntefli.

Sandra Stephany Mayor er ein af stjörnum Þór/KA og má auðveldlega færa rök fyrir því að hún hafi verið besti leikmaður Pepsi deildar kvenna í sumar. Hún hefur slegið í gegn bæði innan vallar sem utan og hefur gælunafnið Borgarstjórinn fest við hana en það er beinþýðing á eftirnafni hennar yfir á íslensku.

Útvarps- og sjónvarpsmaðurinn Þorkell Máni Pétursson eða Máni er mikill aðdáandi Þór/KA en hann er einn af sérfræðingum í þættinum Pepsi mörk kvenna á Stöð 2 Sport. Þar hefur hann til dæmis sagt að af öllum liðum í íslenskum fótbolta í dag sé Þór/KA langsvalasta liðið.

Máni er langt frá því að vera sá eini á þeirri skoðun en einn af þeim sem virðist sammála honum er sonur hans. Máni setti fyrr í dag færslu á Twitter með mynd af syni sínum í glænýrri treyju frá Þór/KA merkta Borgarstjórinn. Við færsluna skrifar hann: ,,Stundum koma upp lið og leikmenn sem heillar fólk og 12 ára drengi alla leið í 210. Þór/Ka og Stephany Mayor eru dæmi um það.“

210 er póstnúmer í Garðabæ þar sem feðgarnir búa. Í Garðabæ er fótboltalið Stjörnunnar sem eru núverandi Íslandsmeistarar og einn af helstu keppinautum Þór/KA. Twitter færslu Mána má sjá hér að neðan:

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó