Frekar auglýst í dagskránni en fréttamiðlum á Akureyri

Frekar auglýst í dagskránni en fréttamiðlum á Akureyri

Ráðuneyti, ríkisstofnanir og fyrirtæki á vegum hins opinbera borguðu tæpar 190 milljónir króna fyrir birtingu auglýsinga fyrstu tíu mánuði ársins. Þetta kemur fram í frétt Rúv sem byggð er á yfirferð reikninga ríkisins á vefnum Opnir reikningar. Tvö fjölmiðlafyrirtæki fengu samtals tæplega þriðjung auglýsingafjárins í sinn hlut.
Þá voru fjölmiðlarnir Fréttablaðið og Árvakur (útgefandi Morgunblaðsins) með tæplega þriðjung allra auglýsingakaupa ráðuneyta, ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja á tímabilinu eða samtals 58 milljónir króna. Fréttablaðið fékk 37 milljónir en Morgunblaðið 21 milljón króna.

N4 og Ásprent seldu hinu opinbera fyrir tvær milljónir hvort

Á landsbyggðinni eru fyrirtæki sem gefa út dagskrárblöð mest áberandi. Það eru fyrirtækin N4 og Ásprent Stíll sem bæði gefa út dagskrárblöð vikulega. N4 heldur einnig út samnefndri sjónvarpsstöð og Ásprent gefur út héraðsfréttablöðin Skarp og Vikudag. Bæði fyrirtækin fengu tvær milljónir hvor vegna auglýsingabirtinga fyrir hið opinbera.

Í frétt Rúv segir að tekjur héraðsmiðla af auglýsingabirtingum ríkis og stofnana hins opinbera virðist almennt minni en dagskránna. Skessuhorn, einn héraðsmiðla á Norðurlandi, fékk tæpar 700 þúsund krónur í auglýsingatekjur frá hinu opinbera og Fótspor, sem hefur út fjölda héraðsfréttablaða og sjávarútvegsblaða, þ.á.m. fréttablaðið Norðurland, seldi ríkinu auglýsingapláss fyrir rúmar 400 þúsund krónur. Víkurfréttir seldu auglýsingar fyrir tæpar 300 þúsund krónur.

Á Austurlandi keypti hið opinbera auglýsingapláss fyrir 600 þúsund hjá Héraðsprenti sem gefur út dagskrárblað og Útgáfufélag Austurlands sem heldur úti héraðsfréttablaðinu Austurglugganum og vefnum Austurfrétt fengu rúmar 170 þúsund krónur fyrir auglýsingabirtingar hins opinbera.

UMMÆLI