Fyrsta skóflustunga að Móahverfi tekin í morgun

Fyrsta skóflustunga að Móahverfi tekin í morgun

Í morgun var tekin fyrsta skóflustunga að hinu nýja Móahverfi nyrst og vestast í bænum. Gert er ráð fyrir að í hverfinu verði um 1.100 íbúðir og sem hýsa munu 2.300-2.400 manns. Strax í dag hefjast framkvæmdir við gatnagerð og lagnavinnu. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.

Skóflustungu tóku Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs, og Andri Teitsson, formaður umhverifs- og mannvirkjaráðs. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, sagði nokkur orð um þá miklu uppbyggingu sem á sér stað um þessar mundir í sveitarfélaginu en bæjarbúum fjölgar jafnt og þétt og urðu sem kunnugt er 20.000 í apríl síðastliðnum.

Deiliskipulag fyrir Móahverfi var samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar 10. maí 2022. Um er að ræða nýtt íbúðahverfi sem nær yfir um 45 hektara lands þar sem er skipulögð byggð með bæði fjölbýli og sérbýli. Gildandi deiliskipulagsuppdrátt fyrir Móahverfi má nálgast á vefsíðu Skipulagsstofnunar, Deiliskipulag Móahverfi.

Framkvæmdum er skipt í þrjá verkhluta og er nú hafist handa við þann fyrsta sem felur í sér um 3 km af götum og gangstéttum, um 2 km af göngustígum og tilheyrandi fráveitu- og neysluvatnslagnir, ásamt lögnum fyrir hitaveitu, rafveitu og fjarskipti.

Áætlað er að fyrsta verkhluta verði lokið fyrir 1. maí 2024, öðrum verkhluta 1. ágúst 2024 og þriðja og síðasta verkhluta vorið 2025.

Sambíó

UMMÆLI