Fyrstu íslensku ostrurnar væntanlegar á markað

Fyrstu íslensku ostrurnar væntanlegar á markað

Fyrstu íslensku ostrurnar eru væntanlegar á markað á næstunni
Árið 2013 fluttu tveir húsvíkingar inn smáostrur frá eldisstöð á Norður-Spáni og hafa verið að rækta þær áfram í búrum á Skjálfandaflóa. Fyrirtækið heitir Víkurskel og stefnir á að framleiða þrjú- til fimmhundruð þúsund stykki á ári.

Nú eftir fimm ár af ræktun eru ostrurnar loksins væntanlegar á markað en nýr veitingastaður í Reykjavík, Skelfiskmarkaðurinn, verður fyrsta veitingahús landsins, og heimsins, til að bjóða upp á íslenskar ostrur. Eigendur Skelfiskmarkaðarins eru Hrefna Rósa Jóhannsdóttir Sætran, Guðlaugur Frímannsson, Axel Clausen matreiðslumenn og Ágúst Reynisson og Eysteinn Valsson framreiðslumenn.

Hægt að borða ostrurnar beint úr sjónum 
Þetta er í fyrsta skipti sem ostrur eru ræktaðar hér á landi en þær hafa aldrei verið ræktaðar jafn norðarlega í heiminum. Ostrurnar heppnuðust það vel að hægt er að borða skelina beint úr sjónum. Í flestum öðrum ostruræktunum þurfa þær fyrst að fara í gegnum hreinsunarstöð og liggja í þrjá daga í klórböðuðum sjó. Kristján Phillips, framkvæmdarstjóri Víkurskeljar, segir í samtali við Rúv að gæðin komi vegna þess hversu lengi þær eru ræktaðar en ræktunin tekur 5 ár. Svo dafnar ostran sérstaklega vel í köldum sjó.

A-flokks ostrur
Ostrurnar eru rosalega hreinar og ferskar en í samtali við Rúv segir Hrefna Sætran, eigandi Grill- fisk- og skelfiskmarkaðarins, að ostrurnar sem íslendingar hafa venjulega borðað hérlendis, innfluttar frá Frakklandi og fleiri löndum, séu B og C flokks ostrur. Ostrurnar frá Víkurskel séu hins vegar A-flokks ostrur og þess vegna öðruvísi á bragðið, á góðan hátt. Skelfiskmarkaðurinn er nýjasta viðbót í veitingaflóru Reykjavíkur, sem staðsettur er við Klapparstíg 28-30 í Reykjavík, en framkvæmdir standa yfir og stefnt er á að opna sem allra fyrst og bjóða þar upp á ostrurnar frá Skjálfandaflóa.

UMMÆLI