Grænar gjafir

Grænar gjafir

Afmælisgjafir, jólagjafir, útskriftagjafir eða brúðkaupsgjafir. Það er sama hvert tilefnið er, það er alltaf tilefni til að gefa grænar gjafir. Glaðninga sem gleðja ekki einungis þann sem tekur á móti þeim heldur glaðningar sem sömuleiðis kæta jörðina okkar. Af því að jörðin er orðin ansi þreytt á þessari miklu neyslu okkar og ágangi á náttúruna. 

Það er ekki spurning að það er gefandi að gefa gjafir. Það er gaman að gleðja aðra með alls konar glaðningum. Vandamálið er aftur á móti að í mörgum tilvikum nýtast gjafir illa. Stundum fáum við eitthvað sem við þörfnumst ekki eða höfum einfaldlega ekki áhuga á. Þá þiggjum við þó flest gjöfina af kurteisi og þökkum kærlega fyrir okkur. Svo endar hins vegar gjöfin uppi í skáp eða ofan í skúffu þar sem hún safnar ryki. 

Upplifanir og minningar sem gjafir hafa aukist mikið undanfarið og fagna töluverðum vinsældum. Enda er tími og samvera það dýrmætasta sem við getum gefið hvort öðru. Vandamálið nú á dögum er samt það að slíkar gjafir eru margfalt dýrari en til dæmis að kaupa stuttermabol eða spil. Það verður ansi dýr pakki að gefa til dæmis mörgum í kringum sig miða í leikhús eða á tónleika. Og ég tala nú ekki um ef maður sjálfur ætlar að fylgja með sem félagsskapur. 

Grænþvottur er annað vandamál þegar kemur að grænum gjöfum. Þá eru vörur merktar umhverfisvænar án þess að vera viðurkenndar formlega sem slíkar. Vöruframleiðendur eru þá að setja fram rangar eða villandi upplýsingar um tiltekna vöru. Af því að umhverfisvænt, vistvænt eða kolefnishlutlaust eru orð sem selja. Það má segja að þetta sé græn markaðssetning. Og hún virkar vel nú á dögum þar sem það friðar samviskuna hjá mörgum að kaupa eitthvað ef það er umhverfisvænt. En málið er einfaldlega þannig að við stuðlum ekki að sjálfbærari heimi með því að kaupa meira. Þó að það sé varan sé umhverfisvæn. 

Þá er spurningin hvaða gjafir eru raunverulega grænar en á sama tíma hagstæðar. Hér koma nokkrar hugmyndir sem hægt er að hafa bakvið eyrað fyrir næstu misseri en það styttist jú alltaf í jólin. 

  • Peningur til góðgerðasamtaka. 
  • Gjafabréf, s.s. í verslanir, út að borða, afþreying. 
  • Þjónusta, s.s. barnapössun, þrif, tiltekt, nudd, matarboð. 
  • Skipulagðar samverustundir, s.s. ferð í sund, bíó, lautarferð, fjallganga. 
  • Sælkeramatur sem maður leyfir sér ekki í vikulegum innkaupum. 
  • Heimagerðar sultur, súkkulaði, granóla, smákökur og fleiri ætar gjafir. 
  • Allt milli himins og jarðar af loppumarkaði. 

Sérstaklega langar mig að vekja athygli á síðasta punktinum. Það eru kannski einhverjir sem finnst alveg glatað að gefa notaðar gjafir en viðhorfið ætti ekki að vera slíkt. Af því að með þessum hætti verða hlutirnir aftur nýjir. Ekki nóg með að þeir verða nýjir fyrir þiggjandann heldur er líka verið að nýta þá í annað skiptið. Aftur nýtt; þannig að hluturinn verður aftur nýr og aftur nýttur. Svo tala ég nú ekki um hvað það getur verið skemmtilegt að gleyma sér á loppumörkuðum og grafa upp fjársjóð. Þó það taki kannski meiri tíma en að hendast í verslunarmiðstöð korter fyrir jól. 

Grænar gjafir eru góðar gjafir. Fyrir menn, náttúru og dýr. Ef til vill verður fyrirhöfnin örlítið meiri en það er allan daginn þess virði. 

*We can’t just consume our way to a more sustainable world*


Sambíó

UMMÆLI