Heilsuprótein ehf. opnar verksmiðju á morgun

Verksmiðjan verður vígð á Sauðárkróki á morgun.

Heilsuprótein ehf. er nýtt fyrirtæki á vegum Mjólkursamsölunnar og Kaupfélags Skagfirðinga en markmið þeirra er að framleiða verðmætar afurðir úr mysu sem áður hafa ekki verið nýttar. Verksmiðjan, sem vígð verður á morgun á Sauðárkróki, kemur til með að framleiða próteinduft úr mysu sem verður afgangs eftir ostagerð á Vestur-, Norður- og Austurlandi.
Þetta er fyrsti áfangi verksmiðjunnar en seinni áfangi hennar er að framleiða ethanól úr mjólkursykri ostamysunnar og mysu sem verður afgangs við skyrgerð. Seinni áfanginn er áætlaður innan tveggja ára. N4 greinir frá. 

Í fréttatilkynningu frá MS og KS segir að framleiðslan marki tímamót í umhverfismálum og nýsköpun innan mjólkuriðnaðarins á Íslandi og einnig aukin verðmætasköpun úr hráefni sem áður fór til spillis.

Áætlað er að hægt verði að framleiða um 300 tonn af þurrkuðu próteindufti á ári. Mysuprótein er verðmæt afurð sem notuð er í ýmis matvæli eins og vaxtavörur og fæðubótarefni. Algengt er að íþróttafólk neyti mysupróteins, einnig þekkt sem „whey protein“ til að auka vöðvauppbyggingu.  Jafnframt er áætlað að hægt verði að framleiða um 1,5 milljónir lítra af ethanóli á ári en framleiðslan mun nýtast meðal annars í eldsneyti og vínanda.

„Samstarfið við KS hefur opnað margar dyr og teljum við að hér muni skapast mikil verðmæti með miklum möguleikum á ýmis konar framleiðsluvörum og útflutningi,“ segir Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar og stjórnarformaður Heilsupróteins. „Með þessu framtaki viljum við einnig leggja okkar á vogarskálarnar í umhverfismálum í okkar framleiðslu og á sama tíma nýta hráefni til fulls.“

„Sú nýsköpun sem hefur átt sér stað við nýtingu þessa hráefnis er það sem koma skal í landbúnaði og erum við hjá Kaupfélagi Skagfirðinga virkilega stolt af því að taka þátt í slíkri vinnu. Okkur finnst einnig mikilvægt að vera fyrirmynd annarra fyrirtækja, þá sérstaklega matvælaframleiðenda þegar kemur að nýsköpun og umhverfismálum,“ segir Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri KS.

Á morgun, laugardag, er kúabændum, stjórnmálamönnum og öðrum góðum gestum er boðið til veislu vegna opnunar verksmiðjunnar þar sem boðið verður upp á smakk á vörum sem innihalda mysupróteinið og ethanól.

Sambíó

UMMÆLI