Hlegið í Hofi á morgun

Hlegið í Hofi á morgun

Á morgun, föstudaginn 15. mars, verður uppistandssýningin Púðursykur sýnd í Hofi. Sýningin hefur notið mikilla vinsælda sunnan heiða frá því að hún hóf göngu sína í Sykursalnum í Reykjavík síðasta haust.

„Púðursykur byggir á grunni uppistandshópsins Mið-Íslands en í sýningunni hafa margir af vinsælustu skemmtikröftum landsins komið fram. Á sýningunni í Hofi föstudagskvöldið 15. mars nk. koma fram Björn Bragi, Dóri DNA, Emmsjé Gauti, Jóhann Alfreð og Jón Jónsson,“ segir í lýsingu viðburðarins á tix.is.

Björn Bragi, Dóri DNA og Jóhann Alfreð eru allir reynsluboltar í gríni og eru þeir meðlimir í uppistandshópnum Mið-Ísland. Jón Jónsson og Emmsjé Gauti eru öllu nýrri á grínsenunni og eru báðir tónlistarmenn sem fetuðu sín fyrstu skref í uppistandi með Púðursykur sýningunni á undanförnum mánuðum.

Emmsjé gauti var nýlega gestur í þættinum Stefnumót með Hörpu á KaffiðTV og minntist þar á nýja uppistandsferilinn sinn, en þann þátt má finna með því að smella hér.

Tvær sýningar verða í röð í Hofi á morgun, ein klukkan 19:00 og önnur 22:00. Þegar þessi frétt er skrifuð eru enn til fáeinir lausir miðar og finna má frekari upplýsingar og miðasölu á tix.is, mak.is eða með því að smella hér.

UMMÆLI