Hluti Grundarbílsins kominn í leitirnar

Bíll sömu gerðar og Grundarbíllinn. Innan rauða hringsins má sjá ljósker eins og það sem varðveist hefur.

Þremur árum eftir að fyrsti bíllinn kom til landsins kom fyrsta bifreiðin til Akureyrar. Magnús Sigurðsson bóndi á Grund í Eyjafjarðarsveit varð þar með fyrsti bíleigandinn á Norðurlandi. Hann pantaði bifreiðina, flutningabíl af gerðinni N.A.G., frá Þýskalandi í nóvember 1907. Magnús rak verslun á Grund og var bílnum m.a. ætlað að sjá um vöruflutninga til og frá Akureyri. Grundarbíllinn hafði verið í eigu súkkulaðiverksmiðju í Berlín sem notaði hann til að flytja súkkulaði á milli staða. Yfirbyggingin var næstum mannhæðar há, klædd járni og stáli að utan en fóðruð með timbri og korki að innan. Líklegast hefur útbúnaður þessi verið hugsaður til varnar því að súkkulaðið bráðnaði í flutningum. Ásamt varningi komust tíu manneskjur fyrir í húsi bílsins auk þess sem pláss var fyrir tvo farþega fram í hjá ökumanni.

Grundarbíllinn var hálfgerður gallagripur. Bíllinn vó um 3,9 tonn, þar af var yfirbyggingin u.þ.b. 1,2 tonn að þyngd. Ekki var bíllinn kraftmikill, 8-9 hestöfl, sem þýddi að hann gat farið 20 km/klst og þá þurfti að ýta honum upp brekkur. Aksturinn milli Grundar og Akureyrar gat tekið 3-4 klukkustundir báðar leiðir en vegalengdin er 15-20 km. Þá var erfiðleikum bundið af fá auka hjólbarða fyrir bílinn þar sem framleiðslu þeirra var hætt um það leyti sem Magnús flutti bílinn til landsins. Þó Grundarbíllinn hafi ekki verið upp á marga fiska áttu erfiðar samgöngur einnig sinn þátt í því að Magnús lagði bílnum fyrir fullt og allt árið 1909.

Grundarbíllinn stóð óhreyfður á túninu á Grund til loka árs 1912 þegar gerð var tilraun til að ræsa vélina. Hún rauk í gang, bílnum var ekið til Akureyrar þaðan sem hann var fluttur til Danmerkur og seldur í janúar 1913. Stuttri en viðburðaríkri sögu fyrsta bílsins í heimabyggð var þar með lokið. Fyrsti bíllinn á Norðurlandi á eftir Grundarbílnum var bifreið Rögnvaldar Snorrasonar kaupmanns á Akureyri. Þar með hófst innreið bifreiða á Norðurlandi.

Í ævisögu Magnúsar Sigurðssonar; Dagar Magnúsar á Grund er nokkuð ítarleg lýsing á Grundarbílnum. Þar segir m.a. að „ljósker voru sitt hvoru megin á vagninum framanverðum. Steinolíulampar með glasi (flatbrennarar).“ Saga Grundarbílsins  er sveipuð nokkrum ævintýraljóma og því væri gaman ef í ljós kæmi að bíllinn væri ennþá til. Því miður er borin von að nokkur finni Grundarbílinn nú þegar rúm 100 ár eru liðin frá því að hann var sendur úr landi. En viti menn. Sögunni lauk ekki árið 1913, í það minnsta ekki alveg.

Ljósker af Grundarbílnum sem nú gegnir hlutverki rafmagnslampa í húsi í Þorpinu.

Grenndargralið hefur fyrir því öruggar heimildir að Grundarbíllinn sé ekki að öllu leyti glataður! Þannig er að annað ljósker bílsins er í eigu konu sem á ættir að rekja til Magnúsar á Grund. Kerinu var breytt fyrir margt löngu og gegnir það nú hlutverki rafmagnslampa í húsi í Þorpinu á Akureyri. Nú sem fyrr lýsir því ljósker Grundarbílsins upp tilveruna í heimabyggð.

Ein ljósmynd er talin vera til af Grundarbílnum. Hana og fleiri má nálgast á heimasíðu Grenndargralsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó