Hollvinasamtök SAk færðu barnadeildinni 12 ný sjúkrarúm

Hollvinasamtök SAk færðu barnadeildinni 12 ný sjúkrarúm

Hollvinasamtök SAk hafa reynst Sjúkrahúsinu á Akureyri afar vel frá stofnun þeirra fyrir fjórum árum síðan. Á Þorláksmessu afhentu samtökin barnadeild sjúkrahússins 12 ný sjúkrarúm. Verðmæti gjafarinnar er um 9 milljónir króna.

Hollvinasamtökin hafa fjármagnað kaup á rúmlega 20 lækningatækjum síðustu ár og afhentu m.a. sjúkrahúsinu núna í febrúar glænýja ferðafóstru svo kallaða en ferðafóstra er ferðagjörgæsla fyrir nýbura sem þarf að flytja í sjúkrabílum, flugvélum eða þyrlum vegna mikilla veikinda og er bráðnauðsynlegur búnaður fyrir sjúkrahúsið. Þetta er eitt af kostnaðarsamari verkefnum samtakanna hingað til en ferðafóstran kostaði í kringum 30 milljónir. Í ágúst sl. afhentu samtökin bráðamóttöku SAK einnig gjöf, að andvirði 12 milljón króna.

Hafa aflað þriðjungs allra lækningatækja á sjúkrahúsinu 

Hollvinasamtök SAk fögnuðu fimm ára afmæli 13. desember sl. og voru því barnadeildarrúmin afmælis- og jólagjöf til Sjúkrahússins. Ekki stóð til að kaupa þau fyrr en á næsta ári en  Jóhannes G. Bjarnason, formaður Hollvinasamtakanna, segir í samtali við Rúv að fjármögnun hafi gengið von framar og því var þetta mögulegt.

„Meðlimir eru vel á þriðja þúsund og framundan er átak til fjölgunar. Ekki er algengt að áhugamannafélag afli 50 milljóna fyrir opinbera stofnun á einu ári, ef ekki einsdæmi, þar sem við erum aðeins sex sem erum virk í stjórn,“ segir Jóhannes í samtali við Rúv.

Á fimm ára starfstíma samtakanna hafa þau afhent Sjúkrahúsinu á Akureyri tækjabúnað fyrir á þriðja hundrað milljónir króna og hafa á þessum tíma aflað þriðjungs allra lækningatækja á sjúkrahúsinu.

Tengdar fréttir

Hollvinir SAk afhentu Sjúkrahúsinu gjöf að andvirði 12 milljóna

Byko og Hollvinir SAk taka höndum saman

Afhenda sjúkrahúsinu á Akureyri 30 milljóna króna ferðafóstru á laugardaginn

 

UMMÆLI

Sambíó