Hvað vilja Píratar upp á dekk?

Píratar bjóða nú fram í fyrsta sinn í sveitarstjórnarkosningum á Akureyri. Hvað hafa Píratar fram að færa sem bætir einhverju við þá flóru sem fyrir er?  Stutta svarið er, að líkt og félagar okkar á þingi þá brennum við fyrir gagnsæi í stjórnsýslunni og aukinni aðkomu almennings að ákvörðunum sem hann varða, ásamt valdeflingu almennings. Píratar eru róttækt umbótaafl sem vill færa valdið til fólksins.

Í lengra máli má segja að það sem gagnsæ stjórnsýsla gerir fyrir okkur öll er að við fáum að sjá hvernig farið er með völd og ábyrgð í okkar nafni. Ráðstöfun fjármagns og úthlutun efnislegra gæða sem eru sameign okkar allra, er eitthvað sem okkur kemur öllum við.

Aðkoma almennings að ákvarðanatöku getur verið með margvíslegum hætti, en það sem skiptir mestu máli er að auðvelda aðkomu fólks að þeim ferlum sem notaðir eru hverju sinni. Hér þarf markvisst átak í að færa valdið til fólks Nú þegar eru til tól sem hægt er að nota í þessum tilgangi og viljum við sjá þau nýtt hér í bæjarfélaginu.

En hvaða fólk er það sem á að fá þessi völd, hver er þessi almenningur? Í grunninn má segja að Akureyri hafi verið eini bærinn á landinu sem hefði getað flokkast sem verksmiðjubær eftir hefðbundinni skilgreiningu. Þó að Akureyri sé ekki lengur lítill bær norður í landi, heldur stórt sveitarfélag sem innifelur nú mun meiri fjölbreytileika eftir sameiningu við Hrísey og Grímsey, þá hafa sum einkennin ekki horfið.

Hér eru ennþá meirhluti starfa svokölluð láglaunastörf. Harðduglegt fólk sem vinnur mikilvæg störf í fiskvinnslu, kjötvinnslu og stóriðju nú eða hjá Akureyrarbæ sjálfum svo dæmi séu tekin. Við viljum heyra í íbúum bæjarfélagsins og heyra hvað þið hafið að segja og hvað þið viljið sjá í forgang. Píratar sýna daglegu lífi og baráttu almennings áhuga. Við viljum heyra hvernig gengur að ná endum saman og hvernig bæjarfélagið getur komið til móts við þá baráttu. Við erum í stjórnmálum til að auka áhrif og lífsgæði almennings og til þess verðum við að geta hlustað á óskir og þarfir fólks svo hægt sé að vinna í að koma til móts við þær.

Fólk sem vinnur myrkranna á milli til að sjá fyrir sér og sínum hefur oft ekki tíma og orku, eftir að búið er að sinna börnum og búi, til að taka virkann þátt í pallborðum, fundarhöldum eða öðrum uppákomum þar sem fjallað er um málefni samfélagsins af ýmsum sérfræðingum. Þess vegna viljum við skapa vettvang fyrir fólk til þess að taka þátt, með því að koma með samfélagsmótunina inn í stofu í gegnum netið og veita fólki þar með raunveruleg völd til að hafa áhrif á sitt nærumhverfi með beinu íbúalýðræði.

Á næstu vikum munum við birta greinar sem lúta að þeirri sýn sem við höfum á bæjarmálin og það sem okkur finnst brenna á fólkinu í bænum. Þó margt sé gott hér fyrir norðan eru hér til staðar ýmis vandamál sem ekki hefur verið tekið á af bæjaryfirvöldum fram að þessu. Við viljum róttækar umbætur á félagslegum grunni fyrir fólkið í sveitarfélaginu.

Þegar Píratar buðu fyrst fram 2013 til Alþingis notuðum við slagorðið “ Við viljum að þú ráðir “  og núna þegar Píratar stíga sín fyrstu skref í bæjarpólitíkinni hér á Akureyri þá finnst okkur vel til fundið að fara fram undir þessu sama slagorði.

Með sumarkveðju

Halldór Arason

Guðrún Ágústa Þórdísardóttir

Höfundar skipar fyrstu tvö sæti á lista Pírata á Akureyri fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar

Sambíó

UMMÆLI