Kennari í Lundarskóla greindist með Covid-19

Kennari í Lundarskóla greindist með Covid-19

Kennari í 1. bekk í Lundarskóla á Akureyri hefur greinst með Covid-19. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar í dag.

Þar segir að nemendur í 1. bekk þurfi því að vera í sóttkví til föstudagsins 6. nóvember ásamt starfsfólki í sóttvarnarhólfinu þar sem kennarinn starfaði. Nemendur í 1. bekk sem voru ekki í skólanum á fimmtudag og föstudag þurfa ekki að fara í sóttkví.

Skólastjórnendur eru í nánu samstarfi við smitrakningarteymi um framhald málsins.

„Brýnt er að allir sýni ítrustu varúð og setji persónulegar sóttvarnir í algjöran forgang. Notum andlitsgrímur, sprittum og þvoum hendur vel, forðumst fjölmenni og virðum ávallt 2ja metra regluna. Ef vart verður flensulíkra einkenna sem gætu bent til Covid-19 smits, skal hafa samband við heilsugæsluna. Hlúum vel hvert að öðru, sýnum umburðarlyndi og æðruleysi í leik og starfi,“ segir á vef bæjarins.

92 virk smit eru á Norðurlandi eystra samkvæmt nýjustu tölum sem birtar hafa verið. Öll smitin eru í Eyjafirði.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó