Kítón klassík – Konur eru konum bestar

Frá vinstri: Hrönn Þráinsdóttir og Hallveig Rúnarsdóttir.

KÍTÓN, félag kvenna í tónlist, stendur fyrir klassískri tónleikaröð í Menningarhúsinu Hofi og Iðnó í vor og sumarbyrjun. Næstu tónleikar fara fram sunnudaginn 27. maí kl. 17:00 í Hofi.

Yfirskrift tónleikanna að þessu sinni er Konur eru konum bestar – íslenskar konur í ljóðlist og tónlist. Hallveig Rúnarsdóttir sópransöngkona og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari hafa löngum verið forvitnar um lög og ljóð íslenskra kvenna. Þær hafa  því búið til efnisskrá með lögum íslenskra kventónskálda við ljóð íslenskra kvenljóðskálda,
“Tónlistin sem við flytjum á tónleikunum kemur víða við, allt frá gullfallegum náttúrulýsingum Jórunnar Viðar yfir í glænýja tónlist eftir eitt af okkar meira spennandi ungtónskáldum Sunnu Rán Wonder” segir Hallveig.

Á tónleikunum verður einnig flutt verkið Hvolf eftir Önnu Þorvaldsdóttur, sem hún samdi fyrir tónlistarkonurnar árið 2010, en hún er nú á mikilli sigurgöngu um hinn klassíska tónlistarheim. Einnig verða flutt verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, Þuríði Jónsdóttur, Þóru Marteinsdóttur og Elínu Gunnlaugsdóttur. Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði og Tónlistarsjóði Hofs og Samkomuhússins.

Miðasala er á tix.is og við innganginn
Almennt miðaverð er kr. 3.500.

Sambíó

UMMÆLI