Listsmiðjur fyrir börn og fullorðna í september

Listsmiðjur fyrir börn og fullorðna í september

Í september býður Listasafnið á Akureyri upp á tvær ólíkar listsmiðjur þar sem börn og fullorðnir fá tækifæri til að vinna saman undir leiðsögn listamanns og skapa verk sem sett verða upp á sérstakri sýningu í safnfræðslurými safnsins. Smiðjurnar tengjast sýningunni Einfaldlega einlægt, sem var opnuð 26. ágúst, en þar má sjá verk listakonunnar Katrínar Jósepsdóttur, sem oftast var kölluð Kata saumakona. Málverk Kötu eru einlæg og gefa sig ekki út fyrir að vera neitt annað en þau eru. Listakonan „lét vaða“ á eigin forsendum og virka verkin því sem mikilvæg hvatning fyrir bæði börn og fullorðna. Allir geta skapað og útkoman getur komið á óvart. 

Portrett og persónuleikar

Þann 2. september kl. 13 mun Fríða Karlsdóttir, myndlistarkona, bjóða börnum og fullorðnum að skoða portrett og persónuleika. Hvað einkennir fólk og hvað stendur upp úr í fari þess? Hvað gerir fólk eftirminnilegt? Hvað eru þeirra uppáhalds hlutir og í hvaða umhverfi birtist það? Þátttakendur leika sér og heiðra áhugvert fólk með því að mála af því myndir. Fríða lærði myndlist í Hollandi og tekur þátt í og stendur fyrir menningarstarfi á vegum listahópsins Kaktus. 

Póstkort í nýrri merkingu

Laugardaginn 30. september kl. 13 býður Egill Logi Jónasson, myndlistarmaður, þátttakendum að skapa sitt eigið verk út frá tveimur ólíkum póstkortum og mála þau svo saman í eina mynd. Að því loknu fer myndin í ramma sem þátttakendur skreyta sjálfir. Egill Logi nam myndlist við Listaháskóla Íslands og vinnur í ýmsa miðla. Hann er jafnframt einn af aðstandendum listahópsins Kaktus. 

Ekkert þátttökugjald en afar takmarkaður fjöldi og skráning nauðsynleg á heida@listak.is.
Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og verkefnastjóri er Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi.

UMMÆLI