Meira en lágmarks jafnrétti

www.danielstarrason.com

Jafnrétti karla og kvenna er göfugt takmark og það er gott að vita til þess að sveitarfélagið okkar stefnir að því. Staðreyndin er samt sem áður sú að réttindi okkar eru ekki jöfn á meðan að einhver okkar eru skilin útundan. Jafnréttisstefnur sem að takmarka sig við einungis einn hóp eða eina breytu, líkt og jafnréttisstefna Akureyrar, eru því ekki jafnréttisstefnur sem að standa vörð um réttindi okkar allra.

Við viljum öll trúa því að Ísland sé í fremstu röð og að bæjarfélögin okkar standi sig með prýði í þessum efnum.Raunveruleikinn er samt sá að þegar að kemur að réttindum hinsegin fólks, svo dæmi sé tekið, þá höfum við stöðugt dregist aftur úr enda hefur hér aldrei verið jafnrétti að fullu til staðar fyrir þann samfélagshóp.

Regnbogakort Evrópu er verkefni unnið af ILGA-Europe útfrá lögum Evrópuþjóða og greina þar hversu nálægt hver þjóð kemst því að hafa náð fullu jafnrétti fyrir hinsegin fólk. Kort þetta er gefið út annað hvert ár og var nýasta kortið birt mánudaginn 14. Maí og enn og aftur höfum við fallið um sæti, úr því sextánda, niður í hið nítjánda.

Það er ekki þannig að lagalegt jafnrétti hinsegin fólks hafi eitthvað verið skert, heldur hefur ekkert áunnist. Lagaleg réttindi hinsegin fólks eru ennþá ekki nema tæplega helmingur lagalegra réttinda þerra sem ekki eru hinsegin. Til dæmis eru intersex börn ekki vernduð gegn ónauðsynlegu læknisfræðilegu inngripi í líkama þeirra, trans og intersex fólk hefur ekki lagalega verndaðann sjálfsákvörðunarrétt og mismunun fólks útfrá kynhneigð, kynvitund og kyneinkennum er ennþá ekki fyllilega bönnuð með lögum.

Verst stöndum við okkur í málefnum hinsegin hælisleitenda en í þeim málaflokki fáum við einkunina núll og föllum því með öllu.

Vissulega er það vandamál sem að er fyrst og fremst ríkisstjórnar að leysa, en á sveitastjórnarstiginu getum við samt sem áður haft áhrif með að sýna gott fordæmi og leggja okkur fram við að skapa jafnréttisstefnur sem að taka frekara tillit til fjölbreytileika sveitarfélagsins og með þeim hætti þrýst á að löggjafarvaldið geri slíkt hið sama fyrir íslenskt samfélag í heild sinni.

Núgildandi jafnréttisstefna Akureyrar hefst á þessum orðum: ,,Íslensk jafnréttislöggjöf takmarkast við jafnrétti kynjanna og það gerir jafnréttisstefna Akureyrarbæjar einnig.”

Í stefnunni er viðurkennt að mismunun gerist einnig af öðrum orsökum og að kynin standi ekki jöfn nema á þeim orsökum sé tekið. Stefnan inniheldur upptalningu á þessum helstu orsökum og nefnir að námsefni og kennsluhættir innan skóla bæjarins eigi að taka mið af því fjölbreytta samfélagi sem við búum í, en það breytir því ekki að hún hefst á þessari takmörkun. Við þurfum ekki að takmarka jafnréttisstefnuna okkar við það lágmark sem bundið er í íslenskri jafnréttislöggjöf.

Núverandi jafnréttisstefna gildir til næsta árs og er því tækifæri fólgið í því að uppfæra hana í sátt og samvinnu við þá jaðarsettu hópa sem að finnast í samfélaginu okkar, breikka svið hennar og gera betur. Jafnrétti er nefnilega ekki jafnrétti fyrr en það gildir um okkur öll.

Höfundur skipar 3. sæti á lista Pírata á Akureyri fyrir sveitastjórnarkosningar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó