Náttúran og manneskjan skiptast á hlutverkum í nýju tónverkiDaniele Basini í regnskógum Borneo

Náttúran og manneskjan skiptast á hlutverkum í nýju tónverki

Þann 17. Mars næstkomandi klukkan 17:00 verður tónverkið Borneo frumflutt í Akureyrarkirkju. Á Facebook viðburði fyrir tónleikana segir um verkið:

„Borneo er frumflutningur á verkefni þar sem hljóðin úr regnskógi og lifandi tónlistarflutningur mynda eina heild.
Sumarið 2022 dvaldi Daniele Basini í mánuð á eyjunni Borneo (austur Malasía) í þeim tilgangi að taka upp hin ýmsu hljóð úr regnskógunum þar.
Hljóðin úr regnskóginum munu því næst blandast saman við frumsamda lifandi tónlist flutt af kammersveit.
Tónlistin og regnskógarhljóðin munu tvinnast saman í sameiginlegum hljóðheimi þar sem einnig verður rými fyrir spuna og rafræna hljóðeffekta.“

Daniele Basini, höfundur verksins er gítarleikari og tónskáld, auk þess em hann kennir í Tónlistarskólanum á Akureyri. Hann settist niður með fréttaritara og ræddi um verkið, lífið og listina.

Byrjaði seint

Daniele segir áhuga sinn á tónlist, bæði flutningi og skáldskap, hafa kveiknað heldur seinna hjá sér heldur en mörgum kollegum sínum. Hann tók ekki upp gítarinn fyrr en hann var orðinn unglingur, í kringum fimmtánda aldursárið. Um tvítugt fór hann að fá áhuga á að semja sína eigin tónlist og fór að lokum í tónsmíðarnám í háskóla.

Daniele segir áhuga sinn á tónsmíð helst hafa vaknað í gegnum kvikmyndatónlist og nefnir hann sérstaklega samlanda sinn Ennio Morricone frá Ítalíu, sem er sérstaklega þekktur fyrir tónlist sína í spagettívestrum líkt og Dollara-þríleiknum svokallaða með Clint Eastwood í aðalhlutverki. Einnig minnist Daniele á John Williams, sem er einna þekktastur fyrir samvinnu sína með leikstjóranum frækna, Steven Spielberg, í myndum á borð við ET og Schindler’s list.

Það var svo tónlistin sem lokkaði Daniele fyrst til Íslands, en hann flutti hingað til Akureyrar frá Noregi árið 2014. Þá var hann nýlega útskrifaður með mastersgráðu frá háskóla í Noregi þegar tækifæri gafst til þess að leysa af kennara í fæðingarorlofi við Tónlistarskólann á Akureyri. Til að byrja með ætlaði Daniele sér aðeins að búa hér í sex mánuði, meðan á afleysingunni stóð, en svo fór að fleiri atvinnutækifæri tengd tónlist komu í ljós hér á bæ og Daniele leið vel hér og hefur síðan fest sér rætur.

Borneo

Daniele fór fyrst til Malasíu árið 2019. Hann segist hafa einfaldlega farið þangað til þess að gista í regnskóginum og njóta lífsins. Þar varð hann strax virkilega hrifinn af þeim hljóðum sem regnskógurinn gaf frá sér, en hann lýsir þeim sem svo óvenjulegum að þau nánast hljómi ekki náttúruleg, heldur líkari suðinu í rafmagni. Hugmyndin um að gera tónlist upp úr slíku kveiknaði þá strax, en ekkert varð úr því fyrst um sinn.

Það var ekki fyrr en sumarið 2021 sem Daniele ákvað loksins að láta verða af þessari hugmynd. Hann var þá í sundi í þeirri bongó-blíðu sem ríkti það sumar og átti spjall við félaga sinn, gítarleikarann Kristján Edelstein, sem hvatti hann til þess að gera endilega eitthvað úr þessu. Daniele pantaði sér strax miða til Malasíu fyrir næsta sumar og tók í það skiptið með sér almennilega hljóðnema og upptökutæki. Eftir dvöl hans í Malasíu árið 2022 tók Daniele heim með sér yfir 300 gígabæt af hinum ýmsu regnskógarhljóðum. Þegar heim var komið hjálpuðust Daniele og Kristján að við að „mixa“ hljóðin þannig að unnt væri að spila þau í fjórum hátulurum í senn og láta þeim sem i miðjunni sæti líða eins og hann væri virkilega staddur í regnskóginum. Næst samdi Daniele tónlist fyrir kammersveit sem fléttaðist inn með regnskógarhljóðunum og úr varð tónverk sem hann skýrði svo Borneo, í höfuðið á eyjunni þaðan sem hljóðin koma.

Um tiltölulega stórt og kostnaðarsamt verkefni er að ræða og er því verkefnið styrkt af Uppbyggingasjóði Norðurlands Eystra, Tónskáldasjóði RÚV og STEF, Menningarsjóði Akureyrarbæjar og Listvinafélagi Akureyrarkirkju.

Náttúran sjálf helsti innblásturinn

Daniele segir innblásturinn fyrir verkinu hafa komið úr ýmsum áttum, til að mynda þekki hann til ýmissa tónskálda sem hljóðritað hafa fuglasöng og vafið inn í tónlist sína, auk þess sem hann minnist á að hljómsveitin Pink Floyd hafi nýtt náttúruhljóð í sinni tónlist. Hann segist hins vegar ekki vita til þess að tónverk hafi verið flutt áður með einmitt þessum hætti, þ.e.a.s. þar sem náttúruhljóðin séu spiluð allt í kringum áhorfendur og samtvinnist tónlistinni. Þó viðurkennir hann að sjálfsögðu að til sé gríðarlegt magn af tónlist og mögulegt sé að eitthvað svipað sé til úti í heimi.

Helsti innblásturinn fyrir verkið segir þó Basini að séu náttúruhljóðin sjálf, en náttúran, frá fuglasögn til öldugljáfurs, hafi verið að flytja tónlist í miljónir ára áður en manneskjan steig fram á sjónarsviðið. Tónlistin sem spiluð verður með umhverfishljóðunum í verkinu tekur sérstakt mið af þessu og er ætlað að gefa af sér mjög náttúrulegan hljóm, en eins og áður kemur fram þykir Daniele regnskógurinn gefa af sér tiltölulega ónáttúrulegan hljóm, svo líta má á það sem svo að náttúran og mannfólkið skiptist á hlutverkum í þessu verki.

Hvetjum við lesendur til þess að gera sér glaðan dag um næstu helgi og mæta á frumflutning Borneo í Akureyrarkirkju. Daniele segir sýninguna tilvalið tækifæri til þess að sjá einstakt tónverk flutt í fyrsta sinn. Eru nemendur sérstaklega hvattir til mætingar, en nemendaafstláttur er á aðgangseyri og miðinn því einungis 1500 krónur.


UMMÆLI