SA Íslandsmeistarar í 18. sinn

SA Íslandsmeistarar í 18. sinn

Kvennalið SA tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli í gærkvöldi með sigri á Skautafélagi Reykjavíkur 7-0. SA hefur átt frábært tímabil en það vann alla 14 leikina í deildar- og úrslitakeppninni í vetur, yfirleitt með talsverðum yfirburðum. Það var vitað mál að liðið yrði sterkt fyrir tímabilið þar sem Ynjur og Ásynjur sameinuðust fyrir tímabilið en yfirburðirnir í vetur hafa þó verið með ólíkindum.

,,SA mætti með sitt sterkasta lið í gærkvöldi. Bæði liðin fengu ágætt tækifæri til þess að skora í fyrstu lotu en markverðir liðanna voru mættir til leiks og vel það. Silvía Björgvinsdóttir fann þó leiðina í markið og koma SA í 1-0 undir lok fyrstu lotu en jafnræði hafði verið með liðunum fram að því. Áframhaldandi jafnræði var í marktækifærum liðanna í byrjun annarrar lotu en Hilma Bergsdóttir kom SA í 2-0 með skrautlegu marki snemma lotunnar. Silvía bætti við marki um miðja lotuna og Sunna Björgvinsdóttir kom SA í 4-0 þegar hún lék laglega á markvörð Reykjavíkur eftir góðan undirbúning Silvíu og staðan 4-0 fyrir síðustu lotuna. Þriðja lotan var nánast formsatriði en SA liðið lék við hvern sinn fingur og bætti við þremur mörkum í lotunni þar sem Silvía skoraði tvö til viðbótar og Eva Karvelsdóttir eitt. SA tryggði sér þar með Íslandsmeistaratitilinn eftir nánast fumlaust tímabil,“ segir í lýsingu leiksins inn á heimasíðu SA.

Bestu leikmenn tímabilsins voru heiðraðir í lok leiks en Silvía Björgvinsdóttir hjá SA fékk verðlaun fyrir að vera bæði besti sóknarmaður tímabilsins sem og stigahæsti leikmaðurinn. Saga Margrét Sigurðardóttir, hjá SA, var valin besti varnarmaður tímabilsins og Karítas Halldórsdóttir markvörður Reykjavíkur var valinn bæði besti markvörður tímabilsins sem og mikilvægasti leikmaðurinn.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó