Salsa sveifla á Akureyri Þátttakendur í 10 vikna grunnnámskeiði hjá Salsa North

Salsa sveifla á Akureyri 

Elísabet Ögn Jóhannsdóttir stofnaði Salsa North í upphafi árs og uppfyllti gamlan draum. Hún ætlar að koma á laggirnar reglulegum danskvöldum, fá reglulega kennara að sunnan og/eða erlendis frá og villgeta boðið upp á fjölbreytt námskeið á Akureyri í mismunandi dönsum, stílum og getustigum.

Næsta miðvikudag verður fyrsta salsa kvöld Salsa North haldið á Vamos í miðbæ Akureyrar. Elísabet segir að kvöldin verði vikuleg og opin öllum. Frítt verður inn fyrir öll sem vilja mæta og prófa, kennslan fer fram á milli kl 20:00-20:30.

„Þetta eru liður í því að efla dansmenningu Akureyrar og auðga menningarlífið. Salsa North er svo einnig farið af stað með salsa námskeið. Það er þegar eitt í gangi og tvö sem byrja síðar á vorönn,“ segir Elísabet.

„Salsa North hefur verið í bígerð ansi lengi. Ástríða mín á Salsa byrjaði á ferðalagi í Mexico árið 2005. Ég hafði æft ballet í 5 ár sem barn og færði mig síðar yfir í samkvæmisdans þar sem ég fann mína sönnu ástríðu fyrir latneskum dönsum. Ég æfði og keppti í samkvæmisdansi næstu 5 árin eða þar til unglingsárin skullu á og ég flosnaði upp úr dansinum. En ég hef alla tíð séð eftir að hafa hætt í samkvæmisdansinum en salsa og síðar argentískur tango fylltu í skarðið næstu árin,“ segir Elísabet um Salsa North.

Elísabet hefur verið á miklu flakki stóran part af sínu lífi en árið 2018 flutti hún til Akureyrar og settist að. Síðan þá hefur hana dreymt um að byggja upp öflugt danssamfélag á Norðurlandi.

„Tímasetningin hefur einfaldlega ekki verið fullkomin fyrr en akkúrat núna 2023. Markmiðið með Salsa North er að vera sameiginlegur vettvangur fyrir fólk á Norðurlandi sem langar að njóta þess að dansa latneska dansa á sínum forsendum. Sumir vilja fá tækifæri til að vaxa sem dansarar, færa sig upp um getustig, læra ný spor og öðruvísi stíla. Aðrir vilja einfaldlega dilla sér í takt við suðræna músík í góðum félagsskap.“

„Fyrst og fremst vil ég deila gleðinni með sem flestum og vona að sem flestir vilji koma og taka þátt í þessari uppbyggingu með mér, mig grunar nefnilega að það leynist fleiri dansarar hérna fyrir norðan en fólki grunar.“

Salsa North er á Instagram og Facebook og von bráðar mun opna heimasíða með öllum upplýsingum.

Sambíó

UMMÆLI