Síðustu forvöð að sjá sex sýningar og listamannaspjall

Síðustu forvöð að sjá sex sýningar og listamannaspjall

Sex sýningum í Listasafninu á Akureyri lýkur sunnudaginn 13. ágúst og því síðustu forvöð að sjá þær um helgina.

Þetta eru eftirtaldar sýningar:

·         Ásmundur Ásmundsson, Myrkvi í sölum 02, 03 og 05,

·         Inga Lísa Middleton, Hafið á öld mannsins í sal 04,

·         Steinunn Gunnlaugsdóttir, blóð & heiður á svölum 06

·         Innan rammans, valin verk fyrir sköpun og fræðslu í sal 07,

·         Guðjón Gísli Kristinsson, Nýtt af nálinni í sal 09,

·         Sara Björg Bjarnadóttir, Tvær eilífðir milli 1 og 3 í sal 12

Sunnudaginn 13. ágúst 2023, kl. 15 verður boðið upp á listamannaspjall með Söru Björgu Bjarnadóttur um sýningu hennar „Tvær eilífðir milli 1 og 3″ í sal 12 í Listasafninu á Akureyri. Hlynur Hallsson safnstjóri ræðir við Söru um sýninguna og verk hennar.

„Þú gengur meðfram sjávarsíðunni. Virðir fyrir þér óendanleika sjóndeildarhringsins en speglar inn á við, þar er heldur engan endi að finna. Til að ná skerpu þarf að afmarka.

Þú gengur inn, rýmið er afmarkað, afmarkað af líkama, framlenging af líkama. Líkami og rými eru eitt og hið sama en aðskilin í senn, eins og tveir vökvar í sama máli. Hugsun er líkamleg, það býr viska í líkamanum. Milli huga og líkama eru huglæg skil; tveir dropar í sama vatni. Vitundin svamlar milli líkama, huga, rýmis og allra rásanna sem flæða þar á milli.“

Sara Björg kafar út í rýmið og leyfir líkamlegri tengingu sinni við það að leiða sig áfram í framsetningu þessa verks – verks sem reynir að fanga tilfinningu, ástand eða tíma sem orð ná ekki utan um. Óáþreifanleg minning af nýliðnu tímabili stöðnunar.

Sara Björg Bjarnadóttir (f. 1988) útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2015. Hún hefur sýnt víða á Íslandi og einnig í Berlín, Vilníus, Los Angeles, Aþenu og London.

Aðgöngumiði á safnið gildir á listamannaspjallið.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó