Þór/KA fær sænskan markvörð

Íslandsmeistarar Þór/KA fengu liðsstyrk í gærkvöldi áður en félagskiptaglugginn á Íslandi lokaði. Markvörðurinn Johanna Henriksson gekk í raðir liðsins. Johanna spilaði síðast með Apollon Limassol á Kýpur en hún var áður á mála hjá Kristianstad í Svíþjóð. Hún er fædd árið 1994.

Helena Jónsdóttir, markvörður Þórs/KA, sleit krossband gegn Stjörnunni í úrslitaleik Lengjubikarsins í vor og verður ekkert með liðinu í sumar. Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir hefur varið mark liðsins í fyrstu leikjum Pepsi deildarinnar en hún tók sér frí frá fótbolta í vetur eftir að hafa spilað með liðinu síðasta sumar.

„Ég er virkilega ánægður að vera búinn að ganga frá þessu og tel að við séum komin með frábæran markvörð. Það verður spennandi að sjá hvernig hún kemur inn í liðið og hvernig hún stendur sig. Við þurftum á öflugum markverði að halda því verkefnin framundan eru bæði mörg og krefjandi. Johanna hefur til að bera marga góða eiginleika sem ég vil sjá hjá markverði, mikill liðsmaður, lætur vel í sér heyra og er bæði líkamlega og tæknilega sterkur markvörður,“ sagði Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs/KA, eftir að gengið hafði verið frá samningum við Johönnu. 

Johanna Henriksson hefur nú þegar fengið keppnisleyfi með Þór/KA og mun því væntanlega verja mark liðsins í heimaleiknum gegn KR miðvikudaginn 23. maí. 


Goblin.is

UMMÆLI

Sambíó