Þykkir veggir Ráðhúss Akureyrar

Þykkir veggir Ráðhúss Akureyrar

Jón Ingi Cæsarsson skrifar:

Verktakafyrirtækið SS Byggir á Akureyri kynnti á síðasta ári hugmyndir um að byggja allt að ellefu hæða hús á Oddeyrinni, sem urðu strax umdeildar. Þannig mótmælti hverfisnefnd Oddeyrar svo háum byggingum. Meirihluti skipulagsráðs bæjarins hefur nú samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að aðalskipulagsbreyting verði auglýst. Tryggvi Már Ingvarsson formaður ráðsins segir að gert sé ráð fyrir að hæsta byggingin á umræddu svæði verði takmörkuð við 25 metra yfir sjávarmáli. (Sjá nánar N4.is)

Það eru þykkir veggir á bæjarskrifstofunum.

Bæjarstjóri talar um víðtæka pólitíska sátt í málefnum Oddeyrar. Væntanlega er bæjarstjóri að tala um þá sátt sem ríkir innan veggja á Geislagötunni þar sem meirihluti skipulagsráðs hunsar skilaboð frá bæjarbúum og halda sínu striki. Hún virðist ekki hafa heyrt af skilaboðum bæjarbúa, ekki einu sinni heldur tvisvar. Nú þriðja sinn er bæjarbúum nóg boðið.

Enga háhýsabyggð á Oddeyrinni á Akureyri

Fésbókarsíða sem stofnuð var fyrir 20 tímum hefur nú yfir 1.300 fylgendur og fjölgar hratt. Það er kannski þessi sátt sem bæjarstjóri er að tala um.

Ætti kannski að opna gluggann á skrifstofunni og hlusta á bæjarbúa?

Þrátt fyrir víðtæk mótmæli og augljósa andstöðu ætla bæjaryfirvöld að troða hugmyndum verktakans ofan í kokið á bæjarbúum. Sumir kalla það verktakalýðræði og hafa nokkuð til síns máls.

Auðvitað byggjum við upp á Oddeyri og gerum það í sátt og í samræmi við það skipulag sem samþykkt var fyrir ekki svo löngu.

Það á ekki að afhenda verktökum aðgengi að hlutum Oddeyrar til að gera bara eitthvað sem þeim líkar. Við byggjum upp í sama takti allsstaðar á Eyrinni, svona rugl er ófaglegt og lýsir skammsýni og skipulagsleysi.

Að hefja hús til himins á einum smá reit syðst eyðileggur taktinn í uppbyggingu allt um kring. Myndi næstum örugglega hafa það í för með sér að reitir norðan og austan við SS reitinn myndu ekki byggjast á næstu árum, ef til vill áratugum. Hverjir vilja byggja í skuggavarpi verktakans sem sneri bæjaryfirvöldum árið 2020.

Vona að bæjarfulltrúar og bæjarstjóri horfi til heildarhagsmuna en gangi ekki erinda þröngra sérhagsmuna.

UMMÆLI