Tilnefningar til manneskju ársins 2022 á Kaffinu

Tilnefningar til manneskju ársins 2022 á Kaffinu

Kaffið.is stendur fyrir vali á Norðlendingi ársins 2022 og geta lesendur nú tekið þátt í kosningu til að velja þær manneskjur sem standa út.

Blaðamenn og álitsgjafar Kaffið.is hafa valið tíu aðila sem eiga nafnbótina skilið í ár. Lestu nánar um þau tilnefndu fyrir neðan könnunina. Úrslit verða tilkynnt á Kaffið.is á nýársdag.


Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson

Maðurinn á bakvið Niceair. Norðlenska flugfélagið hóf millilandaflug frá Akureyri sumarið 2022 og hefur flogið ótal Akureyringum út til Evrópu og lífgað upp á ferðamannaiðnaðinn á svæðinu.

Lesa: Hefja millilandaflug til Akureyrar í sumar


Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer

Hjónin Finnur og Sigríður opnuðu Skógarböðin við Akureyri árið 2022. Böðin hafa slegið í gegn bæði hjá Akureyringum og ferðafólki.

Lesa: Um 800 manns í Skógarböðunum á laugardaginn: „Allir verið alsælir“

Mynd: MAGNÚS HLYNUR HREIÐARSSON

Fjölskylda og vinir Ágústar Guðmundssonar

Árið 2021 réðust nokkrir vinir Ágústar í það verkefni að reisa veglegan útikörfuboltavöll við íþróttahús Glerárskóla honum til heiðurs. Þann 29. ágúst 2022 var völlurinn vígður og minnisvarði til heiðurs athafnamanninum og körfuknattleiksþjálfaranum reistur. Aðstandendur Garðsins hans Gústa söfnuðu um 10 milljónum til verkefnisins.

Lesa: Garðurinn hans Gústa formlega vígður í gær

Guðrún Gísladóttir, eiginkona Ágústs heitins, og börn þeirra Júlíus Orri og Berglind Eva 

Hafdís Sigurðardóttir

Hjólreiðakonan Hafdís Sigurðardóttir fagnaði ótrúlegum árangri í sinni grein á árinu. Hún var valin hjólreiðakona ársins hjá Hjólreiðasambandi Íslands og Hjólreiðafélagi Akureyrar. Hún varð Íslandsmeistari í götuhjólreiðum og tók þátt í Evrópumeistaramóti. Í lok árs hjólaði hún svo 1.012 kílómetra á 46 klukkutímum til að safna áheitum.

Lesa: Hafdís hjólaði 1.012 kílómetra


Berglind Júlíusdóttir og Sigríður Edda Ásgrímsdóttir

Berglind og Sigríður Edda eru hjúkrunarfræðingar og meðlimir í Rauða krossinum á Akureyri, hlutu Mannréttindaviðurkenningu Akureyrarbæjar fyrir framlag sitt í verkefninu Frú Ragnheiður á Akureyri. Frú Ragnheiður er skaðaminnkandi verkefni sem felst í nálaskiptaþjónustu, sálrænum stuðningi og heilbrigðisaðstoð fyrir einstaklinga sem nota vímuefni í æð. Verkefnið miðar að því að ná til jaðarsettra einstaklinga í samfélaginu og draga úr áhættu og skaða sem hlotist getur af notkun vímuefna, með valdeflingu að leiðarljósi.

Lesa: Jafnréttisviðurkenningar Akureyrar árið 2022


Karen Birna Þorvaldsdóttir

Karen Birna hélt fyrstu doktorsvörn í sögu Háskólans á Akureyri á árinu.  Doktorsritgerð Karenar Birnu ber heitið Að skilja og mæla hindranir þess að leita sér hjálpar eftir áfall: Þróun á mælitæki með blönduðum aðferðum. Meginmarkmið doktorsverkefnisins var að þróa íslenskt mælitæki sem metur hindranir þess að leita sér hjálpar eftir áfall.

Lesa: Karen Birna Þorvaldsdóttir varði doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum

Mynd: Axel Darri Þórhallsson

Vilhjálmur Bragason

Vilhjálmur Bragason var valinn leikari ársins í aukahlutverki á Grímuverðlaununum í ár. Vilhjálmur fékk verðlaunin fyrir hlutverk sitt sem Ketill Skrækur í leiksýningu Leikfélags Akureyrar Skugga Sveinn.

Lesa: Vilhjálmur valinn leikari ársins í aukahlutverki á Grímunni


Guðríður Sveinsdóttir

Guðríður er ein af fimm kennurum sem tilnefndir voru til Íslensku menntaverðlaunanna 2022. Guðríður hefur leitt þróunarstarf meðal annars um stærðfræðimenntun og upplýsingatækni í kennslu og hefur verið ötul við að deila reynslu sinni með öðrum kennurum bæði með fyrirlestrum og á heimasíðum sem hún heldur úti.

Lesa: Guðríður Sveinsdóttir tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2022


Sigrún Steinarsdóttir

Sigrún er umsjónarkonar Matargjafa á Akureyri og vinnur þrekvirki árlega. Aldrei áður hafa jafn margir óskað eftir aðstoð fyrir jólin eins og í ár. 374 einstaklingar þáðu aðstoð þessi jól með mat og/eða bónus og nettókortum hjá Matargjöfum eða 121 fjölskylda.

Mynd: Fréttablaðið/Auðunn Níelsson

Elvar Orri Brynjarsson

Elvar er rúmlega tvítugur Akureyringur sem fór í vor út sem sjálfboðaliði við landamæri Póllands og Úkraínu þar sem að hann aðstoðaði heimafólk í Úkraínu að komast úr landinu. Elvar var hluti af hóp sem fór reglulega inn í Úkraínu með mat og nauðsynjar ásamt því að hjálpa fólki sem vildi flýja land.

Lesa: Ungur Akureyringur aðstoðar á landamærum Póllands og Úkraínu

Skjáskot: RÚV

Sambíó

UMMÆLI