Prenthaus

Tvö Akureyrarlið féllu úr þýsku úrvalsdeildinni – Alfreð hreppti bronsið

Sigursælasti þjálfari Þýskalands á þessari öld

Keppni í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta lauk um nýliðna helgi en þrír Akureyringar hafa haft lifibrauð sitt af því að stunda handbolta í þessari sterkustu handboltadeild heims í vetur, þeir Alfreð Gíslason (þjálfari Kiel), Rúnar Sigtryggsson (þjálfari Balingen) og Arnór Þór Gunnarsson (leikmaður Bergischer).

Arnór Þór var næstmarkahæsti leikmaður Bergischer í lokaumferðinni en hann skoraði fimm mörk úr sex skotum þegar liðið vann átta marka sigur á Hannover-Burgdorf, 32-24. Þessi stórsigur dugði liðinu hinsvegar ekki til að tryggja sæti sitt á meðal þeirra bestu þar sem önnur úrslit lokaumferðarinnar voru Arnóri og félögum óhagstæð. Fór að lokum svo að Bergischer féll þar sem þeir höfðu verra markahlutfall en næsta lið fyrir ofan.

Arnór Þór var langmarkahæsti leikmaður Bergischer á leiktíðinni og endaði tímabilið sem tólfti markahæsti leikmaður deildarinnar.

Arnór Þór Gunnarsson og félagar féllu á grátlegan hátt

Í lokaumferðinni mættust Alfreð og Rúnar með lið sín en Balingen, lið Rúnars, var fallið fyrir lokaumferðina á meðan lærisveinar Alfreðs þurftu sigur til að gulltryggja þriðja sæti deildarinnar. Fór að lokum svo að Kiel vann þriggja marka sigur, 25-22. Alfreð er sigursælasti þjálfari þýsku Bundesligunnar á þessari öld en hann bætti enn einum titlinum í safnið fyrr á leiktíðinni þegar Kiel varð bikarmeistari.

Sjá einnig

Alfreð þýskur bikarmeistari í fimmta sinn

Arnór Þór Gunnarsson í nærmynd – Leit upp til Valda Gríms

Sambíó

UMMÆLI