beint flug til Færeyja

Umskiptingar setja upp nýja barnasýningu

Umskiptingar setja upp nýja barnasýningu

Umskiptingar vinna um þessar mundir að nýrri barnasýningu sem kallast Töfrabækurnar og er fyrirhuguð frumsýning 1. október. Töfrabækurnar er brúðuleikhús þar sem unnið er með þjóðsögur. Hugmyndin er að með tímanum verði hægt að velja um nokkrar bækur sem innihalda eina sögu hver. Áhorfendur velja þá sögu sem þau vilja heyra en þegar bókin opnast breytist hún í leikmynd fyrir söguna og þær persónur sem koma fram verða tvívíðar brúður sem stjórnað verður ofan frá. Tveir leikarar stjórna brúðum og sjá um allan leik og lifandi tónlistarflutning.

Þjóðsögur eru til í flestum löndum og þar er Ísland engin undantekning. Hugmyndin er að glæða þessar gömlu þjóðsögur nýju lífi svo þær gleymist ekki heldur geymist í minni barna. Í framtíðinni munum við leita fanga í fleiri löndum en til að byrja með er fókusinn á íslenskar þjóðsögur. Hugmyndin vaknaði fyrir nokkrum árum síðan þegar meðlimir hópsins veltu fyrir sér að auka aðgengi barna að leikhúsi. Þá var skoðaður möguleikinn á að búa til leikhússeríu fyrir börn sem væri hægt að keyra á lágmarksstyrkjum en hafa samt gæði og lágt miðaverð í forgrunni. Brúðuleikhúsið er fullt af töfrum og því var ákveðið að fara þá leið. Þá var ákveðið að hafa þjóðsögur sem grunn að öllum verkum og að það yrði fjölbreytt flóra frá mörgum löndum, enda Ísland orðið fjölmenningarland.

Fyrsta sagan sem sögð verður í Töfrabókunum er sagan af Gýpu. Gýpa er með eindæmum matgráðug og mesta furða að hún hafi ekki verið búin að éta heimilisfólk út á gaddinn. Þegar matinn þrýtur étur hún askinn sinn, karl og kerlingu í kotinu og kúna Kreppilhyrnu. Síðan heldur hún af stað til að leita að meiri mat og við fáum að fylgja henni eftir í sýningunni.

Leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir og leikarar eru Margrét Sverrisdóttir og Jónína Björt Gunnarsdóttir. Margrét sá jafnframt um gerð leikmyndar og brúðugerð. Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason eru höfundar tónlistar og framleiðandi er Fanney Valsdóttir en hún sá jafnframt um gerð búninga. Sindri Swan sá um myndatökur og hönnun plakats og póstkorta var í höndum þeirra Sindra og Jennýjar Láru.

Við gerð brúða, leikmyndar og búninga hefur verið leitast við að nýta það sem til er í stað þess að kaupa nýtt. Brúðurnar og bókin sjálf eru gerð úr alls kyns umbúðum og efnisafgöngum sem öðlast þannig nýtt líf. Það sama á við um búningana en þeir eru m.a. gerðir úr gömlum rúmfötum, gluggatjöldum og gömlum flíkum en nytjamarkaður Hjálpræðishersins var okkur innan handar með efni í búninga. „Við vildum bara sýna að það er hægt að gera skemmtilegt leikhús án þess að kosta miklu efnislegu til en auðvitað liggur mikil vinna að baki bæði í hugmyndavinnu og gerð leikbrúða, leikmyndar og búninga“ segir Fanney, framleiðandi sýningarinnar.

Atvinnuleikhópurinn Umskiptingar telur alls 12 manns en í dag eru virkir félagar þau Jenný Lára Arnórsdóttir, Margrét Sverrisdóttir, Sesselía Ólafsdóttir, Vilhjálmur B. Bragason, Sindri Swan, Jónína Björt Gunnarsdóttir, Arnþór Þórsteinsson, Fanney Valsdóttir, Kolbrún Lilja Guðnadóttir og María Pálsdóttir. Birna Pétursdóttir og Rósa Ásgeirsdóttir eru brottfluttar og starfa því ekki með hópnum eins og stendur.

Árið 2017, þegar leikhópurinn var stofnaður markaði það tímamót. Það var í fyrsta skipti í 4 ár sem atvinnuleikhópur var starfandi á Akureyri. Það sama ár sýndu þau sitt fyrsta verk, „Framhjá rauða húsinu og niður stigann“. Það vakti mikla eftirtekt og fékk góða dóma og var sýnt bæði í Hlöðunni við Litla-Garð á Akureyri, og í Tjarnarbíói og árið eftir var leikhópurinn tilnefndur til Grímunnar sem sproti ársins. Árið 2019 settu þau svo upp frumsamda fjölskylduleikritið 

„Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist“, með frumsamdri tónlist og aðkomu fjölmargra listamanna víðsvegar að af landinu. Hún fékk frábærar viðtökur og fjórar stjörnur í Morgunblaðinu og árið eftir var sýningin tilnefnd til Grímunnar sem barnasýning ársins. Árið 2021 var síðan tvíleikurinn “Í myrkri eru allir kettir gráir” frumsýndur en hann samanstóð af tveimur einleikjum, “Heimþrá” og “Líf” en sá síðarnefndi öðlaðist framhaldslíf sem einleikur og var sýndur bæði í Samkomuhúsinu í samstarfi við Leikfélag Akureyrar og í Iðnó þar sem sýningin var partur af Reykjavík Fringe Festival. Margrét Sverrisdóttir sem bæði skrifaði verkið og lék það fékk verðlaun fyrir bestu karaktersköpun hátíðarinnar.

Eins og áður sagði verður fyrsta Töfrabókin, sagan af Gýpu, frumsýnd 1. október  kl 14:00 í Leikhúsinu á Möðruvöllum í Hörgársveit. Eftir sýningar verður boðið upp á kaffi kruðerí og föndur þar sem meðal annars verður hægt að sjá hvernig hægt er að gera sína eigin útgáfu af Gýpu. Töfrabækurnar verða alla sunnudaga í október og fyrstu helgi í nóvember og hægt að kaupa miða á tix.is.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands Eystra.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó