Viljayfirlýsing um aukið samstarf og mögulega sameiningu Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst

Viljayfirlýsing um aukið samstarf og mögulega sameiningu Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst

Elín Díanna Gunnarsdóttir, starfandi rektor Háskolans á Akureyri, Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um að hefja formlegar viðræður um samstarf og mögulega sameiningu háskólanna. Þetta kemur fram á vef Háskólans á Akureyri.

Á vef Stjórnarráðs Íslands segir að viðræðurnar muni felast í fýsileikagreiningu á því hvaða samruna- eða samstarfsform henti best til að tryggja áframhaldandi starfsemi skólanna beggja með aukin gæði þeirra að markmiði. Háskólarnir tilnefna báðir þrjá aðila í viðræðurnar sem leiddar eru af Aðalsteini Leifssyni, fyrrverandi ríkissáttasemjara.

„Staða Háskólans á Akureyri er mjög góð. Við viljum halda áfram að byggja okkur upp, þróa námið okkar, auka rannsóknavirkni og byggja upp ákveðna innviði. Þá viljum við sækja fram á þeim sviðum þar sem við erum sterk og viljum gera enn betur. Við erum áhugasöm um að sjá hvort þetta samtal og vinna með Háskólanum á Bifröst geti hjálpað okkur að ná þeim árangri og þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Nú mun hefjast greining á fýsileika þar sem við munum kanna hvort grundvöllur sé fyrir sameiningu eða ekki. Þegar niðurstaða fýsileikagreiningar liggur fyrir verður tekin ákvörðun um næstu skref,“ segir Díanna.

Sambíó

UMMÆLI