Vopnaður „konungur“ bældi niður andstöðu Eyfirðinga

Um miðjan júlí árið 1809 reið Jörgen Jörgensen inn til Akureyrar klæddur einkennisbúningi breskra skipherra í fylgd tveggja einkennisklæddra og vel vopnaðra lífvarða. Við upphaf ferðarinnar frá Reykjavík höfðu þeir reyndar verið fleiri í flokknum en sökum þess hve Norðlendingar reyndust gestrisnir og viðmótsþýðir fengu nokkrir lífvarðanna að yfirgefa lestina. Í Eyjafirði fann Jörgensen hins vegar fyrst fyrir almennri andstöðu við fyrirætlanir sínar. Vissulega hafði komið til átaka á leiðinni norður en á Möðruvöllum hafði hann neyðst til að leysa amtmanninn frá embættum sínum þar sem hann vildi ekki hlýða hinu nýja yfirvaldi.

Jörgen Jörgensen (1780-1841) kom til Akureyrar sumarið 1809.

Höfuðstaður Norðurlands lét vissulega ekki mikið yfir sér en það hefur vafalaust komið Jörgensen á óvart hversu margt var þar um manninn. Á Akureyri bjuggu að staðaldri um 40 sálir en þennan dag voru auk íbúanna um 60 síldveiðimenn að störfum við Pollinn. Jörgensen mun væntanlega hafa gefið sig á tal við fólkið sem þarna var samankomið og sagt þeim frá nýju landslögunum en það gerði hann gjarnan hvert sem hann fór. Í æviminningum sínum segir Jörgensen að honum hafi verið tekið vel af bæjarbúum og þeir hafi sagt honum ýmis kærumál í garð dönsku kaupmannanna.

Eitt af markmiðum norðurferðarinnar var að kanna hversu miklar byrgðir væru í vöruskemmum kaupmanna og hvort starfshættir þeirra væru sanngjarnir gagnvart alþýðunni. Þremenningarnir stöðvuðu því hesta sína við einu verslunina á Akureyri, verslun Hemmerts, og kröfðust þess að fá að litast um húsakynnin. Hemmert sem var annars nokkuð dagfarsprúður náungi þverneitaði að hleypa aðkomumönnunum inn því hann óttaðist líklega að verslunin yrði gerð upp. Hemmert mun hafa reynt að hrekja Jörgensen burt með valdi. Það gagnaði lítt og hann fékk heldur engan stuðning frá alþýðunni. Jörgensen bað lífverði sína að sitja sem fastast en steig sjálfur af baki og gekk með brugðu höggsverðinu inn til kaupmannsins.

Gunnlaugur Briem (1773-1834) var sýslumaður Eyjafjarðarsýslu.

Hinn stórmerkilegi en nokkuð hlutdrægi sagnaritari Espólín segir að á meðan Jörgensen hafi athafnað sig inni hjá kaupmanni hafi lífverðir hans setið í mannþrönginni með hlaðnar pístólur og skolfið af hræðslu. Enginn veit nákvæmlega hvað átti sér stað inni hjá Hemmert nema það að Jörgensen mun hafa lagt frá sér sverðið þegar inn kom er hann taldi sig ekkert hafa að óttast. Þegar Jörgensen snéri til baka frá Hemmert virtust þeir hafa náð góðu samkomulagi sín á milli.

Eitt var það sem olli Jörgensen gremju þegar hann kom í bæinn. Landmælingamennirnir Frisak og Scheel voru hvergi sjáanlegir né kort þeirra enda þeir félagar löngu farnir út á land til frekari mælinga. Hann hefði gjarnan viljað koma höndum sínum yfir gögn þeirra því þau geymdu mikilvægar upplýsingar um öruggar siglingarleiðir við landið. Einhverjir hvísluðu sín á milli að Jörgensen mætti teljast heppinn að lautenantarnir væru ekki í bænum því þeir myndu örugglega ekki sitja þegjandi undir þessu valdaráni. Fleiri voru ósáttir við Jörgensen og fyrirætlanir hans. Gunnlaugur Briem á Grund kom þennan dag til Akureyrar og var ekki glaður með þróun mála. Hann sagði þegar af sér embætti en fékk þess í stað boð frá Jörgensen um að halda á brott til Danmerkur. Gunnlaugur var sýslumaður Eyjafjarðarsýslu. Hann dó árið 1834.

Allt bendir til þess að Frisak og Scheel, landmælingamennirnir tveir og Gunnlaugur Briem hafi þekkst. Vitað er um forláta silfurbikar sem til var á Grund um miðja 19. öldina með nafni Gunnlaugs. Á bikarinn var auk þess grafið: Fra Vennerne Frisak og Scheel. Það sem Grenndargralinu er ekki kunnugt um er hvar bikarinn er í dag. Skyldi einhver vita hvar hann er niðurkominn?

Ítarlegri umfjöllun Arnars Birgis Ólafssonar um heimsókn Jörundar til Akureyrar má finna á heimasíðu Grenndargralsins.

Sambíó

UMMÆLI