Síðasta sólarhring hefur enn bætt í fjölda smitaðra á Norðurlandi eystra. Að morgni 31. október eru 92 í einangrun og 341 í sóttkví í umdæminu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum og lögreglunni í dag.
Þar segir: „Öll virk smit sem vitað er um eru í Eyjafirði og ný smit sem greinst hafa síðasta sólarhring eru á Akureyri og á Dalvík. Smitrakning hefur almennt gengið vel en einnig eru dæmi um smit með óþekktan uppruna og ljóst að til staðar er svokallað samfélagslegt smit á svæðinu.
Smit sem greinst hafa undanfarna daga eru bæði innan fjölskyldna og einnig má rekja smit til starfsemi fyrirtækja. Smit hefur þannig greinst hjá starfsfólki leikskólans Krílakots á Dalvík og verið að vinna í greiningu og upplýsingagjöf. Smit kom einnig upp meðal starfsfólks í fiskvinnslu á Dalvík en talið er að þau smit megi rekja annað. Bæði starfsfólk og gestir veitingahúss á Akureyri voru sett í sóttkví eftir smit sem kom þar upp hjá starfsmanni en smit hafa enn ekki komið fram sem því tengjast. Ennfremur kom upp smit hjá starfsfólki í sérvöruverslun á Glerártorgi en eftir nokkuð ítarlega skoðun á því máli hefur ekki verið talin ástæða til að hafa uppá viðskiptavinum þeirrar verslunar.
Aðgerðastjórn hefur verið í nánu sambandi við aðila á Dalvík vegna þess fjölda smita sem þar hafa komið upp og mun fylgjast grannt með framgangi mála þar.
Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi eystra brýnir því almenning að gæta sérstakrar varúðar og fylgja vandlega þeim reglum sem settar hafa verið til að takmarka útbreiðslu farsóttarinnar sem og öllum leiðbeiningum sóttvarnalæknis.“
UMMÆLI