AK Extreme haldin fyrstu helgina í apríl: „Þetta er skemmtilegasta helgin á árinu“

AK Extreme haldin fyrstu helgina í apríl: „Þetta er skemmtilegasta helgin á árinu“

Rapparinn Emmsjé Gauti staðfesti það að AK Extreme hátíðin verður haldin í ár eftir árshlé. Í tilkynningu á Twitter segir Gauti að hátíðin sé ON.

„Hópurinn er bara seinn að setja það inn. En það skiptir engu máli, þetta er skemmtilegasta helgin á árinu. Fyrsta helgin í apríl. Lænöppið er sturlað, kemur mjög bráðlega á netið,“ skrifar Gauti.

Snjóbretta- og tónlistarhátíðin AK Extreme var ekki haldin á síðasta ári og urðu margir fyrir vonbrigðum en þetta hefur verið gríðarlega vinsæll viðburður meðal bæði snjóbrettafólks og tónlistarunnenda. Hátíðin hefur vakið mikla athygli hérlendis og erlendis, enda þykir það einstakt að búa til stökkpall úr vörugámum í miðjum bænum.

Emmsjé Gauti sagði í samtali við Kaffid.is á síðasta ári þegar ljóst var að hátíðin yrði ekki haldin að þetta væri erfið ákvörðun en nauðsynleg til að halda gæði hátíðarinnar í húfi. Með því að taka eitt ár í pásu gæfi það skipuleggjendum tækifæri til að skipuleggja hátíðina 2020 enn betur.

 „Við erum nú þegar búnir að tryggja okkur nýja og betri staðsetningu sem gefur okkur tækifæri á að stækka bigjumpið. Nýja svæðið býður upp á mjög mikla möguleika s.s. betra aðgengi, minna rask á umferð, stærri pall og meira augnakonfekt fyrir áhorfendur,“ sagði Gauti í samtali við Kaffið á síðasta ári.

Nánari upplýsingar um hátíðina eru væntanlegar þegar nær dregur og Kaffið fylgist að sjálfsögðu vel með. Einnig er hægt að fylgjast með á heimasíðu viðburðarins hér.

Sambíó

UMMÆLI