Ákærður fyrir líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum en starfar enn fyrir bæinn

Ákærður fyrir líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum en starfar enn fyrir bæinn

Fyrrum starfsmaður í íþróttamiðstöð Giljaskóla á Akureyri, sem hefur verið ákærður fyrir líkamsárás í opinberu starfi og brot gegn barnaverndarlögum, er sagður starfa enn fyrir Akureyrarbæ. DV.is fjallar um málið á vef sínum í dag.

Héraðsdómur Norðurlands eystra þingfesti í gær sakamál Héraðssaksóknara gegn starfsmanninum. Honum er þar gefið að sök líkamsárás í opinberu starfi og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa neytt 11 ára gamlan dreng úr buxum og bol í lok apríl á síðasta ári. Maðurinn er einnig sagður hafa slegið drenginn með flötum lófa í andlitið.

Í umfjöllun DV segir að ef menn eru sakfelldir fyrir brot í opinberu starfi mætti bæta allt að helming refsingarinnar við refsingu sem að hámarki má dæma fyrir brot. Líkamsárás í opinberu starfi varði þannig allt að 9 mánaða fangelsi og barnaverndarlagabrotið sem maðurinn er ákærður fyrir varði allt að þriggja ára fangelsi.

Halla Margrét Tryggvadóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Akureyrarbæjar sagði við DV að maðurinn hafi ekki starfað í íþróttamiðstöðinni í Giljaskóla síðan vorið 2019. Samkvæmt heimildum DV var manninum þó ekki sagt upp heldur var hann fluttur á milli starfsstöðva innan bæjarins.

Maðurinn er sagður starfa í dag við húsvörslu á öðrum stað og nafn hans er enn að finna í opinberri símaskrá bæjarins. Í umfjöllun DV segir að að barnið sem maðurinn mun hafa ráðist á samkvæmt ákærunni sæki nú fundi og meðferð vegna atviksins í húsakynni bæjarins, á þeim stað sem maðurinn er nú starfandi.

Halla Margrét benti blaðamanni DV á að starfsmenn Akureyrarbæjar hafi ekki haft vitneskju um að málið hafi leitt til dómsmáls. Hún sagði einnig að bænum væri óheimilt að tjá sig frekar um viðbrgöð við atvikinu þar sem maðurinn væri ekki einn af æðstu stjórnendum bæjarins.

UMMÆLI


Goblin.is