Akureyrarbær hafnar umsókn píludeildar Þórs um vínveitingaleyfi

Akureyrarbær hafnar umsókn píludeildar Þórs um vínveitingaleyfi

Akureyrarbær hefur hafnað umsókn píludeildar Þórs um vínveitingaleyfi. Píludeild Þórs sótti um vínveitingaleyfi í húsnæði deildarinnar í íþróttahúsinu við Laugargötu síðastliðinn maí.

Málið var til umræðu á fundi bæjarráðs 14. júlí. Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður og Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið. Meirihluti bæjarráðs samþykkir eftirfarandi umsögn:

Akureyrarbær hefur í tvígang veitt jákvæða umsögn vegna umsóknar um vínveitingaleyfi í húsnæði sem tengd eru íþróttastarfsemi; í golfskála að Jaðri og í skíðahóteli í Hlíðarfjalli. Í þeim húsakynnum eru sérstakir veitingasalir og fullbúin eldhús þar sem jafnframt er framreiddur matur sem boðinn er viðskiptavinum í atvinnuskyni, til neyslu á staðnum. Í umræddum húsakynnum að Kaupvangsstræti er hvorki veitingastaður né frameiddur matur til sölu, enda er sú starfsemi ekki meginstarfsemi píludeildarinnar.

Undanfarið hefur borið á því að seldir hafa verið áfengir drykkir á íþróttakappleikjum á höfuðborgarsvæðinu. Í þeim tilvikum hefur verið sótt um tækifærisleyfi í hvert sinn sem leikir hafa farið fram. Um tækifærisleyfi til áfengisveitinga er sótt við einstök tækifæri í atvinnuskyni hvort sem um beina sölu veitinganna er að ræða eða afhendingu þeirra, svo sem í kynningarskyni, á sýningum eða sem lið í hvers konar samkomu- og/eða ráðstefnuhaldi, hvort sem er innandyra, undir berum himni eða í tjaldi. Slík leyfi eru eingöngu gefin út þegar atburður fer fram á stað sem ekki hefur rekstrarleyfi.

Með vísan til alls framangreinds getur bæjarráð ekki veitt jákvæða umsögn vegna umsóknar Píludeildar Þórs, en bendir félaginu á að heimilt er að sækja um tækifærisleyfi vegna einstaks tilefnis.

Sindri Kristjánsson S-lista og Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista sitja hjá.

Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs, segir synjun bæjarráðs hafa komið sér á óvart í samtali við fréttastofu RÚV um málið. „Það sem vakti fyrir okkur með þessari umsókn var að hætta þessum feluleik innan gæsalappa. Af því að það er selt hér á öllum meistaraflokksleikjum í bænum bjór án leyfa meira og minna,“ segir Reimar á RÚV.

Heimir Örn Árnason, forseti bæjarstjórnar, segir ekki harða mótstöðu vegna málsins hjá bænum í samtali við RÚV.

„En í þetta skiptið var ekki var ekki gefið leyfi en í framtíðinni, ég meina við þurfum bara að skoða þetta vel og vandlega, ég held að það hafi enginn viljað hoppa á þessa ákvörðun núna,“ segir Heimir.

UMMÆLI

Sambíó