beint flug til Færeyja

Anna Kristjana er Ungskáld Akureyrar 2018

Anna Kristjana er Ungskáld Akureyrar 2018

Anna Kristjana Helgadóttir er Ungskáld Akureyrar árið 2018. Tilkynnt var um úrslit í ritlistarsamkeppninni við hátíðlega athöfn á Amtsbókasafninu í gær.

Ungu fólki á aldrinum 16-25 ára á Eyþingssvæðinu gafst kostur á að senda inn texta í keppnina og hlutu þrjú bestu verkin peningarverðlaun.

Niðurstaða dómnefndar, sem í sátu Hrönn Björgvinsdóttir bókavörður á Amtsbókasafninu, Kristín Árnadóttir fyrrverandi íslenskukennari við VMA og Þórarinn Torfason bókmenntafræðingur og kennari við Oddeyrarskóla, var eftirfarandi:

Þriðja besta verkið var valið „Dagur á veginum“ eftir Söndru Marín Kristínardóttur, í öðru sæti var „Tækifærin“ eftir Önnu Kristjönu Helgadóttir og svo skemmtilega vildi til að ljóðið „Án titils“ var valið í fyrsta sæti en það var einnig eftir Önnu Kristjönu.

Alls bárust 82 verk í keppnina sem er tvöfalt meira en í fyrra. Engar hömlur voru settar á hvers kyns textum væri skilað inn, hvorki varðandi efnistök né lengd. Þeir þurftu þó að vera á íslensku.

Við upphaf athafnarinnar í dag fluttu systurnar Sólrún Svava og Sunneva Kjartansdætur lagið Schottis från Haverö eftir Duo Systrami og síðan las Tinna Sif söguna „Dagur á veginum“ eftir systur sína Söndru Marín og Anna Kristjana las sín verk. Loks var boðið upp á kakó og smákökur.

Ungskáld er verkefni á Akureyri sem miðar að því að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára.Verkefnið er hið eina sinnar tegundar á landinu.

Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá Akureyrarstofu, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtsbókasafninu.

Verkefnið er styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

VG

UMMÆLI

Sambíó