Árangurshlutfall umsókna af Norðurlandi eystra verulegt áhyggjuefni

Árangurshlutfall umsókna af Norðurlandi eystra verulegt áhyggjuefni

Í vorúthlutun Tækniþróunarsjóðs fyrir sumarfrí voru 91 verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni en alls bárust 417 umsóknir í sjóðinn. 21 umsókn barst frá Norðurlandi eystra en einungis 2 verkefni hlutu styrk sem samsvarar 9,5% árangurshlutfalli en það er afar lélegt ef borið er saman við meðaltal alls landsins sem að þessu sinni var 22%.

SSNE hefur barist fyrir því að hækka sóknarhlutfallið, þ.e. hlutfall umsókna af Norðurlandi eystra af heildarfjölda umsókna. Það hefur verið gert með aukinni vitundarvakningu og markaðssetningu á opinberum styrkjum í boði. Má segja að það hafi tekist með ágætum enda stigvaxandi fjöldi umsókna sem berst ár frá ári af okkar svæði.

SSNE hefur einnig beitt sér fyrir bættu árangurshlutfalli umsækjenda en þar hefur árangurinn látið á sér standa. Aðgengi að ráðgjöf vegna styrkumsóknarskrifa hefur verið aukið, bæði hjá ráðgjöfum SSNE sem og aðkeyptri ráðgjöf sérfræðinga sem SSNE tekur þátt í að niðurgreiða. Aðsókn í þessa ráðgjöf hefur verið heldur dræm og væri áhugavert að kanna betur hvað veldur. Þá höfum við boðið upp á vinnustofur og netfundi með fulltrúum Rannís sem hafa gefist vel en nýtast einkum þeim sem eru að hefja umsóknarskrif. Þegar lengra er komið og umsóknir komnar á lokastig væri óskandi að fleiri leiti sér aðstoðar sem við veitum endurgjaldslaust. Nauðsynlegt er þó að óska eftir slíkri aðstoð a.m.k. viku fyrir lokafrest umsókna svo hægt sé að veita viðeigandi aðstoð.

Síðastliðin 12 ár hafa tæplega 420 m.kr. fengist í styrki úr Tækniþróunarsjóði til verkefna á Norðurlandi eystra af rúmlega. 22,5 milljörðum króna eða eingöngu 1,9%. Þarna eru sóknarfæri fyrir landshlutann sem gríðarlega mikilvægt er að nýta betur. Rannís og SSNE vinna nú í sameiningu að lausnum og gott væri að fá hugmyndir og samráð frá þeim sem sótt hafa styrki til Rannís áður. Opnað var fyrir umsóknir í Tækniþróunarsjóð í dag, 8.ágúst og er umsóknarfrestur til 15.september.

Á nýlegu gagnatorgi Rannís er hægt að leita upplýsinga um allar úthlutanir Rannís frá 2010 og flokka eftir ýmsum leiðum. Þar sést augljóslega sú mikla aukning sem orðið hefur í styrkumsóknum í Tækniþróunarsjóð frá 2010 – 2022. Þótt vissulega hafi heildarfjárhæð úthlutana einnig aukist, þá er ljóst að samkeppnin um fjármagnið harðnar stöðugt.

Þessi pistill er úr fréttabréfi SSNE sem má nálgast í heild sinni með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI