Bæjarbúar minntir á að takmarka lausagöngu katta

Bæjarbúar minntir á að takmarka lausagöngu katta

Bæjarbúar á Akureyri eru minntir á að hafa í huga að næturbrölt katta utandyra á þessum árstíma er ekki æskilegt vegna fuglavarps í bæjarlandinu. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bæjarins.

„Sérstök samþykkt um kattahald er í gildi hjá Akureyrarbæ. Takmarka þarf lausagöngu eins og unnt er og sérstaklega yfir nóttina sem er þeirra uppáhalds veiðitími. Ábyrgir kattaeigendur hengja bjöllur í hálsólar katta sinna og halda þeim innandyra að nóttu fuglunum til verndar. Mikilvægt er að kattaeigendur fylgist vel með köttum sínum yfir varptíma fugla og á meðan ungar eru að verða fleygir. Berum virðingu fyrir náttúrunni og viðhöldum fjölbreyttu fuglalífi í bæjarlandinu,“ segir í tilkynningu Akureyrarbæjar.

Samkvæmt samþykkt um kattahald í Akureyrarbæ skal skrá alla ketti í sveitarfélaginu. Vert er að nefna að örmerkjaskráning hjá dýralæknum jafngildir ekki skráningu hjá Akureyrarbæ, en starfsmenn Akureyrarbæjar hafa ekki aðgang að þeirri örmerkjaskráningu. Frá 1. janúar til 30. júní 2021 er skráning katta gjaldfrjáls hjá Akureyrarbæ. Öll tilskilin gögn þurfa að hafa borist fyrir 30. júní. 

UMMÆLI