Einni með öllu aflýst

Einni með öllu aflýst

Ein með öllu, hátíðin sem átti að fara fram á Akureyri yfir Verslunarmannahelgina, hefur verið aflýst. Hætt hefur verið við alla þá viðburði sem tengjast hátíðinni.

Þetta kom í ljós eftir að ríkisstjórnin og sóttvarnaryfirvöld kynntu breyttar sóttvarnaráðstafanir vegna Covid-19 á fréttafundi í morgun. Fjöldatakmörkun á samkomum hefur verið lækkuð í 100 manns og þá er tveggja metra reglan tekin aftur í gildi.

„Við áttum fund með lögreglunni á Akureyri og bæjaryfirvöldum í morgun og það var algjör einhugur um að taka enga áhættu í þessari uggvænlegu stöðu sem upp er komin. Við munum að sjálfsögðu fylgja fast eftir öllum fyrirmælum frá sóttvarnaryfirvöldum og þar með er einboðið að aflýsa fjölskylduhátíðinni Einni með öllu,“ segir Davíð Rúnar Gunnarsson, skipuleggjandi hátíðarinnar á vef bæjarins.

„Við viljum hvetja bæjarbúa sem og landsmenn alla til þess að taka stöðunni alvarlega og fylgja fyrirmælum í hvívetna. Allt annað væri einfaldlega óboðlegt í þeirri grafalvarlegu stöðu sem nú er komin upp,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

UMMÆLI