Einstök gestrisni í Grímsey – Ferðamenn róma eyjuna og íbúa en gagnrýna samgöngur milli lands og eyjaMynd: Gyða Henningsdóttir/ grimsey.is

Einstök gestrisni í Grímsey – Ferðamenn róma eyjuna og íbúa en gagnrýna samgöngur milli lands og eyja

Í sumar fóru fram rannsókn á eðli og áhrifum ferðaþjónustu á samfélag og náttúru Grímseyjar með styrk frá Frumkvæðissjóði Glæðum Grímsey. Verkefnið var samstarfsverkefni Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum (HH), Rannsóknarmiðstöðar ferðamála á Akureyri (RMF) og byggðaþróunarverkefnisins Glæðum Grímsey. Áhersla var á samstarf við ferðaþjónustufólk og íbúa í Grímsey, auk þess sem verkefnisstjóri GLG, Arna Björg Bjarnadóttir tók þátt í að skipuleggja verkefnið og ferðamálafulltrúi hjá Akureyrarbæ, María Helena Tryggvadóttir var ráðgefandi aðili.

Markmið verkefnisins var að safnað gögnum um ferðamál í eyjunni í þeim tilgangi að undirbúa gerð áfangastaðaáætlunar fyrir Grímsey, í anda ábyrgrar stýringar ferðamála. Eyjan er einstök náttúruparadís sem laðar að sér sífellt fleiri áhugasama ferðamenn. Þörfin fyrir að þjónusta ferðafólk hefur að sama skapi aukist undanfarin ár, meðal annars vegna auknum komum skemmtiferðaskipa. Á sama tíma hefur íbúum með fasta búsetu í eyjunni fækkað.

Ferðaþjónustufólk í Grímsey hefur haft áhyggjur af því að þessi þróun færi að hafa neikvæð áhrif á samfélagið og ekki síst náttúru eyjunnar. Inniviðir hennar eru illa undir það búnir að taka á móti miklum fjölda ferðamanna og þolmörk eyjasamfélagsins takmörkum háð.

Auk styrks frá Frumkvæðissjóði fékkst stuðningur frá Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri og Nýsköpunarsjóði námsmanna til verkefnisins. Nemandi í ferðamálafræði við Háskólann á Hólum, Rita Tallárom vann að verkefninu með Laufeyju Haraldsdóttur frá HH og Ásu Mörtu Sveinsdóttur frá RMF, og fékk þar tækifæri til þess að spreyta sig á raunverulegu verkefni á því sviði sem hún er að mennta sig til. Um leið naut verkefnið góðs af samstarfinu.

Að mati Laufeyjar er helsti afrakstur verkefnisins að byggst hefur upp gott tengslanet hagaðila um þróun ferðaþjónustu í Grímsey og safnast hafa mikið af góðum gögnum sem nýtast til áframhaldandi þróunar ferðamála í eyjunni. Gögnin munu einnig koma að góðum notum fyrir svæðið í heild. Hún segir ferðamenn sem koma til Grímseyjar róma náttúru eyjunnar og einstaka gestrisni eyjaskeggja, en vilja greiðari aðgang að eynni með tíðari flugferðum og farþegavænni ferjusiglingum.

Góður árangur verkefnisins hefur orðið til þess að þegar hefur verið lagður grunnur að áframhaldandi og útvíkkuðu verkefni fyrir næsta ár. Verkefnisstýrur, þær Laufey og Ása Marta hyggjast nýta þá reynslu, þau gögn og það samstarfsnet sem til hefur orðið á verkefnistímanum og hafa þegar lagt grunn að áframhaldandi vinnu á sviði ábyrgrar eyjaferðaþjónustu á svæðinu.

Frétt úr fréttabréfi SSNE sem má nálgast í heild sinni hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó